Innherji

CRI hættir við áform um skráningu vegna óróa á mörkuðum

Hörður Ægisson skrifar
Verksmiðja CRI í Svartsengi en fyrirtækið framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni.
Verksmiðja CRI í Svartsengi en fyrirtækið framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni.

Íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI), sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, hefur horfið frá fyrri áformum um skráningu á Euronext Growth markaðinn í Osló í Noregi. Unnið er nú að öðrum leiðum til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins, sem er meðal annars í eigu fjárfestingarfélagsins Eyris Invest, og gert er ráð fyrir að þeirri fjármögnun ljúki síðar á árinu.

Heildartekjur CRI á síðasta ári námu rúmlega 7,2 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 930 milljónir króna, og jukust um 2,2 milljónir dala frá 2020. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA), þegar búið er að leiðrétta fyrir kostnaði vegna kauprétta og vinnu við skráningu á markað, var rúmlega 700 þúsund dalir og minnkaði um meira en milljón dali á milli ára.

Á aðalfundi CRI í fyrra var samþykkt að hefja undirbúning að skráningu á markað í Noregi. Ráðgjafar félagsins í þeirri vinnu voru Sparebank1 Markets, Nordea og Arion, en íslenski bankinn er jafnframt einn af stærri hluthöfum CRI með rúmlega átta prósenta hlut. Stefnt var að því á þeim tíma að sækja um 20 til 30 milljónir dala í nýtt hlutafé samhliða skráningu á hlutabréfamarkað.

Í skýrslu stjórnar CRI frá því í byrjun síðasta mánaðar með nýbirtum ársreikningi félagsins er rifjað upp að snemma í skráningarferlinu hafi orðið ófyrirséðar tafir vegna þessu hversu flókið reyndist vera að skrá hlutabréf í íslensku félagi rafrænt í Noregi, en slíkt hafði aldrei verið gert áður. Að lokum hafi þó náðst að leysa úr því með farsælum hætti.

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest. Félagið fjárfesti fyrir 10 milljónir dala í CRI í fyrra og er næst stærsti hluthafinn í dag með um níu prósenta hlut.VÍSIR/VILHELM

„Á þessum tíma fóru markaðsaðstæður á Euronext Growth markaðinum að breytast til hins verra,“ segir í skýrslu stjórnarinnar, og bent á að á seinni hluta ársins 2021 og fyrri hluta þessa árs hafi fremur fá fyrirtæki sem bera má saman við CRI náð að skrá bréf sín á markað. „Engu að síður, þrátt fyrir mótbyr á hlutabréfamarkaði náðist það markmið í febrúar síðastliðnum að loforð frá kjölfestufjárfestum í útboðinu lágu fyrir og undirbúningur útboðsins og skráningarinnar var að mestu frágenginn.“

Þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar fyrr á þessu ári tóku hins vegar hlutabréfamarkaðir um allan heim að nötra. „Í ljósi efnahagsaðstæðna og hættunnar á áframhaldandi óróa á hlutabréfamörkuðum var í kjölfarið ákveðið að skráning á markað á þessum tímapunkti myndi ekki vera fýsileg,“ að sögn stjórnar CRI.

Nú sé unnið að því að klára annars konar fjármögnun síðar árinu.

CRI er brautryðjandi í þróun búnaðar til að framleiða fljótandi eldsneyti og efnavöru úr vetni og koltvísýringi. Fyrirtækið hefur síðustu tvö ár unnið að hönnun efnaverksmiðju sem verður gangsett síðar á árinu í Anyang í austurhluta Kína. Verkefnið byggir á tækni CRI og mun draga úr losun á 160.000 tonnum af koltvísýringi árlega. Heildarfjárfesting í verkefninu nemur um 12 milljörðum króna.

Þá hefur CRI einnig unnið með orkufyrirtækinu Statkraft að sameiginlegri verkefnaþróun og fjárfestingu í nýrri verksmiðju í Finnfjord í norðurhluta Noregs. Stefnt er að því að framleiðslugeta þeirrar verksmiðju verði um 25 sinnum meiri en í fyrstu verksmiðju CRI, sem reist var í Svartsengi, eða sem nemur 100 þúsund tonnum á ári.

Í mars í fyrra náðist samkomulag við Eyrir Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels með tæplega fjórðungshlut, um að fjárfesta í CRI fyrir um 10 milljónir dala í því skyni að tryggja endurgreiðslu lána sem voru á gjalddaga á árinu 2021. Fjárfesting Eyris var gerð í gegnum dótturfélagið Grænt Metanól sem er í dag næst stærsti hluthafi CRI með tæplega níu prósenta hlut en Þórður Magnússon, aðaleigandi Eyris ásamt syni sínum Árna Oddi Þórðarsyni, er jafnframt stjórnarformaður CRI. Þá ákvað einnig skömmu síðar alþjóðlega fjármálastofnunin Nordic Green Bank (Nefco) að breyta 390 milljóna króna láni sínu til CRI í hlutafé og fer núna með 3,3 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Þeir fjármunir sem fengust með þessari fjárfestingu voru nýttir á liðnu ári til að greiða niður skuldir ásamt vöxtum upp á um 12,7 milljónir dala.

Í skýrslu stjórnar CRI kemur fram að á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafi komið til endurgreiðslu lánaleggir sem voru hluti af þriggja ára lánum sem voru veitt í upphafi árs 2019. Samtals þurfti félagið að greiða um 4,7 milljónir dala af þeim lánum á því tímabili. Þegar lánin voru gefin út fylgdu þeim einnig áskriftarréttindi sem voru í gildi til 1. apríl 2022 og voru alls rúmlega 189 þúsund áskriftarréttindi útistandandi í upphafi árs. Samtals nýttu lánshafar sem áttu yfir 178 þúsund áskriftarréttindi og greiddu fyrir það um 3,2 milljónir dala, eða sem nemur um 18 dali að nafnvirði fyrir hvern hlut.

Var sú fjárhæð nýtt til endurgreiðslu á þeim lánaleggjum sem voru til greiðslu í apríl 2022, að því er segir í skýrslu stjórnar. Þá náðust einnig samningar við einn af stærri lánveitendum félagsins um framlengingu á höfuðstól lánaleggs í sex mánuði að fjárhæð ein milljón dala. Samhliða því var samið um lækkun vaxta og hefur skuldastaða félagsins – vaxtaberandi skuldir voru um 8 milljónir dala í árslok 2021 – því lækkað umtalsvert á fyrstu mánuðum ársins.

Bókfært eigið fé CRI stóð í rúmlega 20 milljónum dala í upphafi ársins 2021.

Carbon Recycling er að stærstum hluta í eigu Íslendinga en á meðal hluthafa, með um 13 prósenta hlut í lok síðasta árs, er kínverska fyrirtækið Zhejiang Geely Holding Group sem kom fyrst inn í hluthafahópinn árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×