Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi E lista lagði tillögun fram en hún felur í sér að gagna verði aflað sem þegar liggja fyrir varðandi rannsóknir á jarðlögum og þeim lokið. Einnig að uppfæra gögn sem þegar eru til um þjóðhagslegan ávinning af slíkri framkvæmd.
Í greinargerð með tillögu Njáls segir að lengi hafi verið rætt um möguleikann á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja og að á síðasta ári hafi verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um rannsóknir á jarðlögum milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum með tilliti til fýsileika jarðgangna á milli lands og Eyja.
Þar segir að forkönnun hafi verið unnin árið 2000 og ýmsir möguleikar skoðaðir, þar á meða flotgöng og botngöng. Rannsóknir á jarðlögum hafi aftur á móti ekki verið kláraðar til fulls og því mikilvægt að halda verkefninu áfram þannig að úr því verði skorið hvort mögulegt sé að koma á vegtengingu milli lands og Eyja.
Göng gætu verið þjóðhagslega ábátasöm
Þá er vísað til meistararitgerðar Víðis Þorvarðarsonar en hann gerði kostnaðar- og ábatagreiningu á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja. Þar kemur fram að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum geti verið um 95 milljarðar króna.
„Ekki þarf að fjölyrða um sparnað sem fælist í gerð jarðgangna en sem dæmi má nefna að rekstur Herjólfs er á ári um 650 milljónir, dýpkun Landeyjahafnar kostar um 400 milljónir á ári og nýtt skip, sem endurnýja þarf á 10-15 ára fresti kostar um 5 milljarða. Þá er ljóst að samfélagslegur kostnaður vegna frátafa í siglingum til Landeyjahafnar er gríðarlegur ár hvert,“ segir í greinargerð.
Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Fundargerð fyrsta fundar nýrrar bæjarstjórnar Vestmannaeyja má lesa hér.