Innherji

Akur hagnast um 1.200 milljónir eftir hækkun á virði Ölgerðarinnar

Hörður Ægisson skrifar
Fjárfestingateymi sjóðsins samanstendur af Jóhannesi Haukssyni, forstöðumanni sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslandssjóðum, og Kristrúnu Auði Viðarsdóttur, fjárfestingarstjóra sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslandssjóðum.
Fjárfestingateymi sjóðsins samanstendur af Jóhannesi Haukssyni, forstöðumanni sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslandssjóðum, og Kristrúnu Auði Viðarsdóttur, fjárfestingarstjóra sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslandssjóðum.

Hagnaður af rekstri framtakssjóðsins Akurs, sem er í eigu lífeyrissjóða og Íslandsbanka, nam um 1.203 milljónum króna á árinu 2021 borið saman við 1.466 milljónir á árinu þar áður. Hagnaður síðasta árs skýrist af hækkun á virði eignarhlutar sjóðsins í Ölgerðinni.

Verðmat Akurs, sem er í rekstri Íslandssjóða, á 18,2 prósenta eignarhlut í Ölgerðinni var rúmlega 3,8 milljarðar króna í árslok 2021 sem samsvarar genginu 7,44 krónur á hlut í drykkjarvöruframleiðandanum. Í útboði Ölgerðarinnar, sem kláraðist í lok síðasta mánaðar og félagið skráð í Kauphöllina fyrr í þessari viku, var meðalgengið hins vegar – þegar litið er til bæði tilboðsbókar A og B – 9,578 krónur á hlut.

Akur seldi um 5,4 prósenta hlut í útboðinu og fer núna með 12,8 prósenta eignarhlut í Ölgerðinni. Miðað við þá sölu, ásamt eftirstandandi hlut sjóðsins, þá næmi heildarsöluverð Akurs yfir fimm milljörðum króna í félaginu. Það er tæplega þreföldun á þeim 1,8 milljarði króna sem framtakssjóðurinn fjárfesti fyrir í Ölgerðinni á árinu 2017 sé litið til núverandi gengis félagsins.

Minniháttar virðisbreytingar urðu á öðrum eignum Akurs fjárfestinga á síðasta ári en þær eru fiskvinnslan Gadus í Belgíu, Allrahanda Gray Line og Fáfnir Offshore. Virði allra fjárfestingareigna Akurs stóð í rúmlega 6,2 milljörðum króna um síðustu áramót.

Tæplega 50 prósenta hlutur sjóðsins Allrahanda, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gray line, er bókfærður á núll krónur rétt eins og árið áður. Unnið er að því að endurskipuleggja fjárhag félagsins en það fékk nýlega samþykkta beiðni um lengri greiðslustöðvun og með það að markmiðið að koma á nauðasamningi.

Frá stofnun Akurs fjárfestinga árið 2013 hefur ein eign verið seld sem var um 13,5 prósenta hlutur í HSV Eignarhaldsfélagi. Var sá hlutur seldur árið 2019 á þreföldu kaupverði, eða fyrir 1.314 milljónir króna með tilliti til arðgreiðslna en eignarhluturinn var keyptur á 425 milljónir króna. HSV Eignarhaldsfélag er næststærsti hluthafi HS Veitna með um 34,4 prósenta hlut.

Fimm stærstu hluthafar Akurs fjárfestinga eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 19,9 prósenta hlut, Gildi lífeyrissjóður 17,07 prósent, Íslandsbanki 14 prósent, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 13,79 prósent og Birta lífeyrissjóður 10 prósent.


Tengdar fréttir

Félag Bjarna bætti verulega við hlut sinn í Fáfni Offshore í fyrra

Sjávarsýn ehf., fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, og Hlér ehf., sem er í eigu Guðmundar Ásgeirssonar, bættu verulega við eignarhluti sína í Fáfni Offshore á síðasta ári þegar félögin keyptu út framtakssjóðinn Horn II og þrjá aðra hluthafa. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Fáfnis Offshore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×