Innlent

Strætis­vagn ók á gangandi veg­faranda

Eiður Þór Árnason skrifar
Tak­markaðar upp­lýsingar liggja fyrir um slysið að svo stöddu.
Tak­markaðar upp­lýsingar liggja fyrir um slysið að svo stöddu. Vísir/Vilhelm

Ökumaður strætisvagns ók á gangandi vegfaranda á Sæbraut í Reykjavík fyrr í dag. Að sögn slökkviliðs hlaut vegfarandinn tvo skurði á höfði og var fluttur á slysadeild. Hann hafi að öðru leyti borið sig vel.

Mbl.is greindi fyrst frá en tilkynning barst slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um málið klukkan 13:45 í dag. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir litlar upplýsingar liggja fyrir um slysið að svo stöddu. Einn farþegi hafi verið í bílnum þegar það átti sér stað og bæði honum og bílstjóra verði boðin áfallahjálp. 

Strætisvagninn var á leið þrjú og var á leiðinni á Hlemm þegar atvikið átti sér stað nærri bensínstöð Olís við Sæbraut 2.

Rannsakað sem alvarlegt umferðarslys

Guðmundur Heiðar segir að rannsókn málsins sé nú á borði lögreglu sem hafi þegar sett sig í samband. Strætó muni verða lögreglu innan handar við rannsóknina og útvega myndefni sem tekið var um borð í vagninum. 

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar, segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi verið tilkynnt um fjöláverka og talsverða blæðingu. Því hafi verið gengið út frá því að um alvarlegt umferðarslys gæti verið að ræða og tæknideild lögreglunnar kölluð á staðinn. Annarri akrein Sæbrautar var lokað á meðan rannsakandi skoðaði vettvang ásamt tæknideild.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×