Skoðun

Lof­orð um leik­skóla­mál – skal þá dæst og stunið?

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Í aðdraganda nýafstaðinna borgarstjórnarkosninganna var mér tjáð af þriggja barna móðir á fertugsaldri að því hefði oft verið lofað að „öll börn í Reykjavík fái leikskólapláss frá 12 mánaða aldri“ og eftir að hafa lagt áherslu á þessi orð sín, dæsti hún verulega.

Já, falleg kosningaloforð, er ekki bara best að andvarpa þegar maður heyrir þau?

Borgarstjóri lofar og borgarstjóri svíkur

Eitt af einkennum stjórnunarhátta núverandi borgarstjóra er að hann kippir sér ekki við að lofa öllu fögru, jafnvel þótt augljóst megi vera að útilokað sé að efna loforðin.

Nýjasta dæmið um þessa nálgun er það loforð sem flokkur borgarstjórans, Samfylkingin, og hans þáverandi samstarfsflokkar, gáfu í aðdraganda áðurnefndra borgarstjórnarkosninga, nefnilega að hinn 1. september nk. verði hægt „að bjóða öllum 12 mánaða börnum vistun“ á leikskóla, sbr. t.d. tillögu borgarstjóra sem þáverandi meirihlutaflokkar samþykktu í borgarráði 3. mars síðastliðinn.

Svo sem bent var á fyrir kosningar af hálfu frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins var óraunhæft að reikna með að öll 12 mánaða börn gætu hafið leikskólagöngu nk. haust. Hinir „heiðarlegu“ Píratar kölluðu þann málflutning óheiðarlegan. Einmitt.

Staðreyndir málsins hafa núna verið gerðar kunnar, útilokað er að öll 12 mánaða gömul börn fái boð að ganga í leikskóla í Reykjavík að hausti komanda. Hvers vegna? Jú, forsendur frá byrjun mars sl. höfðu tekið slíkum breytingum að óvíst er „að öll börn fædd í september á síðasta ári k[o]m[i]st inn í september á þessu ári en við bindum engu að síður vonir við að komast langleiðina þangað“, sbr. ummæli borgarstjóra í sjónvarpsfréttaviðtali við RÚV 14. júní síðastliðinn.

Sem sagt, útreikningar sem framkvæmdir voru af reiknimeisturum Ráðhúss Reykjavíkur um fjölda leikskólaplássa sem í boði yrðu 1. september nk. og fjölda umsókna um þau pláss, urðu haldslausir þrem mánuðum síðar.

Það heppilega við þessi afdrif útreikninganna, fyrir borgarstjóra, er að þau voru kynnt eftir kosningar.

Núna skil ég betur hvers vegna móðirin dæsti svona mikið.

Höfundur situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×