Dómstóllinnn í Svíþjóð mat það sem svo að hægt væri að verja tvær af þeim þremur aðgerðum sem ákæran náði til, en að sú þriðja hafi verið óverjandi og ekki framkvæmd í samræmi við vísindin og sannreyndar aðferðir.
Dómur féll í málinu í morgun, en Macchiarini hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir grófar líkamsmeiðingar í einum ákæruliðnum, en sýknaður af hinum tveimur. Vildi dómari meina að reynslan af fyrri aðgerðunum tveimur hafi verið slík að læknirinn hefði ekki átt að beita sömu aðferð við þá þriðju. Saksóknarar höfðu farið fram á fimm ára fangelsisdóm yfir Macchiarini.
Sjö ár eru nú síðan málið rataði í fjölmiðla eftir að uppljóstrari greindi frá aðgerðum Macchiarini með plastbarka. Sjö sjúklinga Macchiarini sem fengu plastbarka grædda í sig eru nú látnir og þurftu háttsettir menn á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi meðal annars að láta af störfum vegna málsins.
Ákæruliðirnir þrír sneru að þremur sjúklingum Macchiarini; 36 ára karlmanni sem búsettur var á Íslandi, þrítugum Bandaríkjamanni og svo 22 ára konu frá Tyrklandi. Var Macchiarini sakfelldur fyrir aðgerðina á konunni frá Tyrklandi.
Hinn skilorðsbundni dómur felur í sér að Macchiarini mun sæta eftirliti í tvö ár, en mun ekki þurfa að afplána fangelsisdóm.