Innlent

„Ís­land er og verður her­laus þjóð sem bygg­ir full­veldi sitt á virðingu“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir flutti ávarp á Austurvelli í tilefni þjóðhátíðardagsins.
Katrín Jakobsdóttir flutti ávarp á Austurvelli í tilefni þjóðhátíðardagsins. Vísir/Friðrik

Heimsfaraldur, stríð í Úkraínu og auðlindir Íslands voru meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði um í ávarpi sínu í tilefni þjóðhátíðardags Íslendinga. Dagurinn markar 78 ára afmæli íslenska ýðveldisins. 

„Fyr­ir réttu ári vor­um við enn að kljást við heims­far­ald­ur­inn. Í hon­um sýndu ís­lenskt sam­fé­lag og heil­brigðis­kerfi styrk sinn og á ótrú­lega skömm­um tíma er sam­fé­lagið orðið aft­ur eins og Er­il­borg sem ég las um sem barn í bók­inni Öll erum við önn­um kaf­in í Er­il­borg,“ sagði Katrín í upphafi ræðu sinnar. 

Katrín sagði stefnu Íslands gagnvart varnarmálum skýra. Íslensk stjórnvöld standi afdráttarlaust við bakið á Úkraínu.

„Þá er rætt um að Ísland end­ur­skoði ör­ygg­is- og varn­ar­mál sín og það er auðvitað viðvar­andi verk­efni stjórn­valda á hverj­um tíma út frá aðstæðum í heiminum. Sú vinna er í gangi meðal ann­ars í tengsl­um við nýtt hættumat og end­ur­skoðun þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands á vett­vangi Þjóðarör­ygg­is­ráðs. Fregna af hvoru tveggja er að vænta á síðari hluta þessa árs,“ sagði Katrín. 

„Ísland er og verður herlaus þjóð sem bygg­ir full­veldi sitt á virðingu fyr­ir alþjóðalög­um og virku sam­starfi við önn­ur ríki á vett­vangi alþjóðastofn­ana,“ sagði Katrín og bætti við að Ísland sé málsvari friðar og afvopnunar. 

Orkumálin mikilvæg og stjórnmálamanna að tryggja árangur í loftslagsmálum

Katrín sagði þá mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að hún héldi yfirráðum yfir orkuauðlindinni og ítrekaði að marka þurfi ramma utan um hvernig arðurinn af nýjum auðlindum er nýttur.

„Orku­auðlind­in og yf­ir­ráð yfir henni eru hluti af full­veldi okk­ar. Þar blasa við álita­mál nú þegar við vilj­um tryggja orku­skipti til að ná ár­angri í bar­átt­unni við lofts­lags­vána. Það er okk­ar stjórn­mála­mannanna að tryggja að þau um­skipti þjóni því mark­miði að tryggja lífs­gæði og lífskjör þeirra sem hér búa sam­hliða því að ná ár­angri í lofts­lags­mál­um,“ sagði Katrín.

„Við þurf­um líka að marka ramma um það hvernig arður­inn af orkuauðlindinni, ekki síst hinni nýju orkuauðlind sem er beislun vindorkunnar, renni til sam­fé­lags­ins. Þar þarf að skrifa leik­regl­urn­ar nú þegar, því staðan er sú að einkaaðilar, inn­lend­ir og er­lend­ir, hafa merkt sér svæði víða um land sem þeir telja ákjós­an­leg til nýt­ing­ar.“

Ísland standi áfram vörð um lýðræðið

Hún sagði þá lýðræðið hafa átt undir högg að sækja og við mættum ekki sofa á verðinum. Á alþjóðavettvangi hafi Ísland stillt sér upp í það hlutverk að vera málsvari mannréttinda og lýðræðis og engin vanþörf sé á slíkum málsvara.

Lýðræðið hef­ur átt und­ir högg að sækja víða um heim á undanförnum árum. Við þurfum stöðugt að halda vöku okkar. Lýðræðið get­ur horfið á einni svip­stundu, jafn­vel þótt það hafi lengi verið við lýði. Í dag, þegar við fögnum því að lýðveldið Ísland er 78 ára, þá vil ég segja: Lát­um lýðræðið verða okk­ar leiðarljós á þess­um þjóðhátíðar­degi og öll­um þeim dög­um sem á eft­ir hon­um koma. Lýðræðið á að vera sú saga, það ljóð, sem við kjós­um okk­ur til handa alla tíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×