Athöfnin var sett við undirleik Unu Torfadóttur en varaforseti borgarstjórnar, Magnea Gná Jóhannsdóttir, lagði blómsveiginn að leiði Bríetar eftir að hafa flutt stutt ávarp.
Í dag eru 107 ár liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Bríet Bjarnhéðinsdóttur átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928.

Konur í Reykjavík buðu fram sérstakan Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sérframboð kvenna á Íslandi. Kvennalistinn vann stórsigur, kom öllum sínum fulltrúum að. Konurnar fjórar, þær fyrstu sem settust í bæjarstjórn Reykjavíkur, voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen. Málin sem þær börðust fyrir í bæjarstjórn voru m.a. sundkennsla, fyrir bæði kynin, og leikvellir fyrir börn. Bríet Bjarnhéðinsdóttir beitti sér jafnframt fyrir því í bæjarstjórn að börn fengju mat í skólanum. Bríet lést í Reykjavík árið 1940.

Þann 19. júní 1915 undirritaði Kristján X. konungur lög um breytingu á stjórnarskrá Íslands sem m.a. færðu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Íslenskar konur fögnuðu þessum tímamótum með hátíðarhöldum í Reykjavík þann 7. júlí, sama dag og Alþingi kom saman til fundar. 19. júní hefur síðan verið sérstakur kvenréttindadagur.