Erlent

Fleiri bendlaðir við hvarfið í Amason­frum­skóginum

Kjartan Kjartansson skrifar
Alríkislögreglumenn bera kista með líkamsleifum sem fundust af Bruno Pereira og Dom Phillips í Amasonfrumskóginum.
Alríkislögreglumenn bera kista með líkamsleifum sem fundust af Bruno Pereira og Dom Phillips í Amasonfrumskóginum. AP/Eraldo Peres

Átta manns eru nú með réttarstöðu grunaðra í rannsókn brasilísku lögreglunnar á morðum á breskum blaðamanni og brasilískum sérfræðingi í frumbyggjum í Amasonfrumskóginum. Þrír hafa þegar verið handteknir vegna morðanna.

Tveir bræður voru upphaflega handteknir en þeir játuðu að hafa drepið Dom Philipps, breskan blaðamann, og Bruno Pereira, frumbyggjafræðing, fyrr í þessum mánuði. Þeir sögðust jafnframt hafa bútað lík þeirra niður. Þriðji maðurinn gaf sig síðar fram við lögreglu.

Fimm manns til viðbótar eru nú grunaðir um að hafa hjálpað til við að fela lík mannanna tveggja, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Frekari upplýsingar um þá grunuðu hafa ekki verið gefnar út.

Phillips og Pereira hurfu þegar þeir voru á ferðalagi í frumskóginum vestast í Brasilíu 5. júní. Annar bræðranna leiddi lögreglu á endanum að staðnum sem lík þeirra voru grafin. Kennsl voru borin á líkin á föstudag.

Lögreglan sagði um helgina að Pereira og Phillips hefðu verið skotnir til bana með veiðiriffli, Philipps einu skoti en Pereira þremur.

Javari-dalurinn þar sem tvímenningarnir voru myrtir er þekktur fyrir ólöglegar fiskveiðar, námugröft, skógarhögg og fíkniefnasmygl. Vopnuð átök á milli glæpagengja, útsendara brasilísku alríkisstjórnarinnar og ýmissa frumbyggjahópa blossa þar upp reglulega.

Phillips og Pereira eru sagðir hafa unnið að umfjöllun um slík átök. Samtök frumbyggja segja að Pereira hafi borist líflátshótanir í aðdraganda ferðar þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×