Bæði saksóknarar og verjendur í málinu fóru fram á að Espen Andersen Bråthen yrði skyldaður í læknismeðferð þar sem hann gæti ekki talist sakhæfur. Þrír réttargeðlæknar komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði þjáðst af ofsóknargeðklofa og verið í geðrofi þegar hann framdi morðin 13. október í fyrra.
Maðurinn hóf árásina í miðborg Kongsberg með því að skjóta örvum af boga innan í matvöruverslun. Síðar réðst hann á fólki með hnífi inni á heimili þess. Hann var með 62 örvar og fjóra hnífa á sér þegar hann var loks handsamaður.
„Við eigum hér við andlega veika manneskju. Manneskju sem er ekki með sektarkennd,“ sagði Andreas Christiansen, saksóknarinn í málinu, í lokaræðu sinni fyrir dómi, að sögn AP-fréttastofunnar.
Dómararnir í málinu sögðu að morðinginn hefði útskýrt við dómhaldið að hann hefði reynt að drepa fólk til að geta endurfæðst. Hann hafi talið að hann yrði blindur og því hefði hann haft brýna nauðsyn að myrða fólk.
Andersen Bråthen verður vistaður á Dikemark-geðsjúkrahúsinu í Asker. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða aðstandendum fórnarlambanna bætur. Fórnarlömbin voru fjórar konur og einn karlmaður á aldrinum 52 til 78 ára.