Skoðun

Í til­efni frat­fréttar helgar­blaðs Frétta­blaðsins um árs­reikninga sveitar­fé­laga 2021

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Við lestur helgarblaðs Fréttablaðsins rak mig í rogastans við að rekast á fratfrétt um ársreikninga sveitarfélaga 2021 með fyrirsögninni „Tap Árborgar það mesta á hvern íbúa“.

Blaðamaðurinn sem ritaði greinina ætlaði sér líklegast að fá flest „klikk“ allra á fréttastofunni um helgina en klikkaði á því í fréttaflutningi sínum að fylgja nokkrum grundvallaratriðum vandaðrar fréttamennsku og upplýsingagjafar til lesenda blaðsins. Vont var svo að sjá annan tveggja nýrra bæjarstjóra í Svf. Árborg kokgleypa gagnrýnislaust og samsinna framsetningu blaðamannsins á umfjöllunarefninu.

Klikkin tvö

Þau tvö klikk blaðamannsins sem hvað mest áberandi eru í fréttinni varða í fyrsta lagi þá íbúafjöldatölu sem notuð er sem deilitala í mælieiningunni „hagnaður/tap síðasta árs í þúsundum króna á hvern íbúa“ og í öðru lagi að ekki hafi verið minnst á í fréttinni hvernig að einskiptiskostnaður vegna breyttra reikniaðferða tryggingafræðinga á framtíðar-lífeyrisskuldbindingum hafði mismunandi áhrif á rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga landsins.

Í fyrra klikkinu notast blaðamaður við íbúafjölda sveitarfélaga í lok árs 2020 sem deilitölu, sem er kolrangt. Rétt er að nota sem deilitölu, íbúafjölda sveitarfélaga í lok árs 2021.

Í seinna klikkinu nefnir blaðamaður svo ekki og tekur ekki tillit til einskiptisaðgerðarinnar sem sveitarfélögin voru skylduð til að framkvæma vegna breytinga á forsendum regluverks varðandi útreikning á lífeyrisskuldbindingum. Forsendubreytingarnar tóku gildi þann 22. desember 2021, þegar að fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti tillögur félags íslenskra tryggingafræðinga um breytingu á svonefndum eftirlifendatöflum sem þannig breyttust að framvegis munu töflurnar byggja á spám um þróun dánartíðni í stað raundánartíðni undanfarinna ára. Þessi aðferðarfræði felur í sér verulega breytingu og hefur í för með sér lækkun dánartíðni í öllum aldursflokkum. Áætluð áhrif af þessari breytingu voru metin sem hækkun á heildar lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga um 5%.

Áhrifin á rekstrarreikninga sveitarfélaganna í kjölfarið urðu í mörgum tilfellum vel sýnileg. Útgjaldaaukning vegna þessarar reiknuðu stærðar á rekstrarhlið ársreikninga sveitarfélaganna jukust um allt að 12%, sum staðar varð lítil sem engin breyting. Í tilfelli Svf. Árborgar hækkuðu útgjöldin óvænt um 5% og leiddi þessi einskiptisaðgerð til hækkunar lífeyrisskuldbindinga um 418 milljónir sem urðu þannig 583 milljónir króna í stað áætlunar upp á 165 milljónir króna. Höfðu verið 50 milljónir árið á undan.

Niðurstaða ársreiknings var því sú að reiknað tap sveitarsjóðs með þessum forsendubreytingum (A-hluta) varð 2,1 milljarðar í stað 1,6 milljarða og tap samstæðunnar (A+B-hluta) varð 1,8 milljarðar í stað 1,3 milljarða.

Íbúafjöldi Svf. Árborgar 1. janúar 2022 var 10.834 og ef ekki hefði komið til þessara forsendubreytinga að þá hefði tap A-hluta verið 149 þkr. per íbúa en ekki 205 þkr. á íbúa eins og segir í fratfréttinni. Slæmt tap, en rekstrartapið ber ekki höfuð og herðar yfir rekstrartap annarra sveitarfélaga eins og segir í fréttinni.

Höfundur er byggingarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Svf. Árborg.


Neðanmálsskýring:

Hvað er lífeyrissskuldbinding?

Lífeyrisskuldbinding myndast þegar sveitarfélag gerir samning við starfsmann um lífeyrisréttindi sem eru umfram þær greiðslur sem sveitarfélagið innir af hendi á hverjum tíma, sem sagt einhvern tímann í framtíðinni. Lífeyrisskuldbindingin breytist svo meðal annars: við að starfsmaður vinnur sér inn aukin réttindi; við að viðmiðunarlaun breytast umfram verðlagsbreytingar; eftir aldri starfsmanns; þegar greitt er af skuldbindingunni og þegar það verða breytingar á lífslíkum starfsmannsins samkvæmt útreikningum tryggingafræðinga auk eftirlifenda hans.

Tengd skjöl




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×