Körfubolti

Segir að Irving muni ekki hjálpa Lakers að vinna Golden State

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Draymond Green þykir ekki mikið til leiðtogahæfileika Kyries Irving koma.
Draymond Green þykir ekki mikið til leiðtogahæfileika Kyries Irving koma. getty/Thearon W. Henderson

Draymond Green, leikmaður nýkrýndra NBA-meistara Golden State Warriors, segir að Kyrie Irving muni ekki hjálpa Los Angeles Lakers að velta Stríðsmönnunum af stalli sínum.

Framtíð hins sérlundaða Irvings hjá Brooklyn Nets er í óvissu en hann ku vilja fara til Lakers þar sem hann myndi endurnýja kynnin við LeBron James. Þeir léku saman hjá Cleveland Cavaliers á árunum 2014-17 og urðu meistarar 2016.

Green segir að þótt þeir Irving og LeBron verði sameinaðir á ný sé það ekki ávísun á að Lakers verði meistari.

„Ef þú lætur LeBron fá einhvern eins og Kyrie eiga þeir möguleika því Kyrie getur skorað. LeBron kemur honum í stöður til að skora. Kyrie hefur ekki sannað sig sem frábær leiðtogi en LeBron felur það,“ sagði Green.

„Þeir gætu barist um titilinn en vinna okkur ekki,“ bætti hann við.

Green hefur fjórum sinnum orðið meistari með Golden State; 2015, 2017, 2018 og 2022. Golden State vann Boston Celtics, 4-2, í úrslitunum fyrr í þessum mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×