Þetta er meðal þess sem fram kemur í spálíkani íþróttagreiningadeildar hins virta, belgíska háskóla KU Leuven.
Með því að nýta úrslit leikja landsliðanna sextán sem spila á EM, og gefa þeim vægi eftir tegund leikja, styrk andstæðinga og dagsetningu, var niðurstaðan sú eftir 20.000 ítranir að sænska landsliðið væri líklegast til að verða Evrópumeistari.
Samkvæmt úttektinni eru 27% líkur á að Svíar verði Evrópumeistarar og 24% líkur á að Frakkar, sem leika í riðli með Íslandi, landi titlinum í fyrsta sinn.
Spánn (14%), England (14%) og Holland (10%) koma næst á eftir en önnur lið eru ekki talin sérstaklega líkleg til að landa titlinum.

Ísland nefnt sem eitt liðanna sem gætu komið á óvart
Í bloggfærslu á vef KU Leuven er Ísland þó nefnt sem eitt fjögurra liða sem gætu óvænt landað titlinum og bent á að liðið treysti á að hin efnilega Sveindís Jane Jónsdóttir nái að láta ljós sitt skína.
Ísland leikur í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi og aðeins tvö þessara liða komast áfram í 8-liða úrslit. Yfirgnæfandi líkur, eða 93%, eru taldar á því að Frakkar komist upp úr riðlinum.
Ítalir eru svo einnig taldir talsvert líklegri en Íslendingar til að komast áfram en 62% líkur eru á að Ítalía fari í 8-liða úrslit og 29% líkur á að Ísland geri það.
Aðeins 16% líkur eru taldar á því að Belgía, heimaland KU Leuven, komist áfram.
Sex prósent líkur eru á því að Ísland komist í undanúrslit og 2% líkur á að liðið komist í úrslitaleikinn. Mestu sigurlíkurnar fyrir Ísland eru gegn Belgíu í fyrsta leik, 10. júlí, eða 47%. Taldar eru 26% líkur á sigri gegn Ítalíu 14. júlí en 11% líkur á sigri gegn Frakklandi 18. júlí.
Íslenska landsliðið hélt af landi brott í gær. Áður en að EM kemur mun Ísland spila vináttulandsleik gegn Póllandi ytra á morgun, klukkan 13:30 að íslenskum tíma. Úrslitin úr þeim leik sem og öðrum leikjum fram að EM og á meðan á EM stendur verða nýtt til að uppfæra spálíkan KU Leuven háskólans.