Erlent

Hafi gripið í stýrið og öskrað: „Ég er hel­vítis for­setinn. Farðu með mig í þing­húsið núna“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hutchinson segir að teymi Donald Trump hafi vitað af því að möguleiki væri á því að allt færi úrskeiðis þann 6. janúar fjórum dögum fyrr.
Hutchinson segir að teymi Donald Trump hafi vitað af því að möguleiki væri á því að allt færi úrskeiðis þann 6. janúar fjórum dögum fyrr. EPA/Adam Davis

Cassidy Hutchinson, fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins, gaf skýrslu á opnum fundi þingnefndar sem rannsakar árásina á bandaríska þinghúsið sem gerð var þann 6. janúar síðastliðinn. Meðal þess sem Hutchinson ber vitni um eru samtöl sem áttu sér stað innan Hvíta hússins á meðan hún starfaði þar.

Tímasetning skýrslutökunar kom flestum á óvart en rannsóknarnefndin átti ekki að hittast aftur fyrr en 4. júlí næstkomandi. Hins vegar ræddi Hutchinson nýlega við nefndina bak við luktar dyr og var margt nýtt sem fram kom þar. Því var ákveðið að boða til fundar svo hún gæti gefið skýrslu.

Í skýrslutökunni, sem enn er í gangi, hefur Hutchinson sagt frá ýmislegu sem gerðist innan veggja Hvíta hússins, fyrir og eftir árásina og á meðan hún var í gangi.

Hún segir að möguleikinn á árás þann 6. janúar hafi fyrst verið ræddur þann 2. janúar, fjórum dögum fyrr. Mark Meadows, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, á þá að hafa sagt við Hutchinson: „Hlutirnir gætu farið úrskeiðis, verulega úrskeiðis þann 6. janúar.“ Hún hafði þá nýlega rætt við Rudy Guiliani, fyrrverandi lögmann Trump, sem tjáði henni að þeir ætluðu til þinghússins.

Cassidyy Hutchinson er hún gaf skýrslu á fundinum í dag.EPA/Mandel Ngan

Þá höfðu hugtökin „Oath Keeper“ og „Proud Boys“ verið rædd innan Hvíta hússins nokkrum dögum fyrir árásina. Bæði hugtökin eru nöfn á hreyfingum sem komu að innrásinni í þinghúsið. Þegar árásin var gerð vildi Trump mæta á staðinn en varð blóðillur þegar honum var sagt af öryggisteymi sínu að hann gæti ekki farið þangað. Hutchinson segist hafa heyrt að Trump hafi öskrað á Tony Ornate, starfsmann sinn, að taka sig þangað.

„Ég er helvítis forsetinn. Farðu með mig í þinghúsið núna,“ á Trump að hafa öskrað áður en hann reyndi að grípa í stýrið á bifreiðinni sem hann sat í aftursætinu í.

Hún rifjaði upp að Trump hafi sagt að Mike Pence, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, ætti skilið að vera hengdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×