Menning

Heiðrar minningu systur sinnar: „Hún átti eftir að sýna heiminum listina sína“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan og hönnuðurinn Tóta Van Helzing skilur eftir sig heilmikið af hönnun og list en systir hennar setur upp sýningu með verkum Tótu á LungA í ár.
Listakonan og hönnuðurinn Tóta Van Helzing skilur eftir sig heilmikið af hönnun og list en systir hennar setur upp sýningu með verkum Tótu á LungA í ár. Juliette Rowland

Valgerður Anna Einarsdóttir, jafnan þekkt sem Vala, stendur fyrir sýningunni House of Van Helzing á LungA hátíðinni í ár. Sýningin er haldin til heiðurs systur hennar, hönnuðinum og listakonunni Tótu Van Helzing, sem lést í lok árs 2021 eftir erfiða baráttu við krabbamein. Blaðamaður hafði samband við Völu og fékk nánari innsýn í sýninguna.

House of Van Helzing er sýning til heiðurs prjónahönnuðinum, listamanninum og systur minni Tótu Van Helzing sem verður haldin á LungA á Seyðisfirði dagana 11. - 17. júlí. Tóta Van Helzing lést eftir erfiða og ósanngjarna baráttu við krabbamein síðastliðinn desember. Á sýningunni verða nýjustu listaverkin hennar, verk í vinnslu sem hún fékk ekki tækifæri til að klára og innsýn í hennar hugarheim sem listamaður,“ segir Vala.

Systurnar Tóta og Vala.Aðsend

Tóta hafði alla tíð mikla ástríðu fyrir hönnun og þá sérstaklega einstökum prjónapeysum en samkvæmt Völu verða þær í forgrunni á sýningunni.

„Verkin sem verða til sýnis eru allt handprjónaðar peysur eftir hana. Hún hafði einstakt auga fyrir litasamsetningu og áferðum og verkin eru eftir því. Þær eiga sér enga hliðstæðu. Peysurnar eru aðeins brotabrot af því sem hún hefur gert í gegnum tíðina og þá ég meina algjört brotabrot. 

Þrátt fyrir ungan aldur þá afkastaði hún svo miklu að jafnvel ég varð hissa þegar ég byrjaði að taka þetta saman. Ég sit á ótrúlegu listasafni sem mun verða partur af stærri sýningu seinna.“
Tóta var mikill prjóna snillingur og skilur eftir sig fjöldan allan af peysum og annarri hönnun.Juliette Rowland

Krafturinn og þörfin fyrir að skapa

„Hverjum þykir sinn fugl fagur en í mínum augum var systir mín einn stórkostlegasti listamaður sem Ísland hefur átt. Aðra eins framsýni, sköpunargáfu og auga fyrir endurvinnslu hef ég ekki séð. Allt sem hún gerði var úr endurunnu efni, annað hvort gefins eða frá nytjamörkuðum,“ segir Vala.

Hönnun og stíll Tótu einkenndist gjarnan af litagleði.Juliette Rowland

Þrátt fyrir mikla mótstöðu og erfiðleika leitaði Tóta alltaf í það að skapa.

„Hún greindist með illkynja heilaæxli í desember 2020 sem lamaði hana alveg vinstra megin og hún hafði mestar áhyggjur af því að hún myndi aldrei geta prjónað aftur. Að prjóna og að skapa veitti henni svo mikla hugarró. 

En eftir vel heppnaða skurðaðgerð fékk hún máttinn aftur og prjónaði eins og vél í gegnum alla krabbameinsmeðferðina sína. Þetta er bara eitt dæmi um kraftinn sem hún hafði og þörfina fyrir að skapa.“

Tóta lést langt fyrir aldur fram í desember á síðasta ári.

„Eftir að hún dó var ég týnd og auðvitað er það að mjög miklu leyti ennþá. Ég missti systur mína, bestu vinkonu og manneskjuna sem ég ætlaði að ganga í gegnum lífið með. En að mínu mati er það minnsti parturinn af þessari martröð, hún var svikin af öllu því stórkostlega sem hún átti eftir að gera. 

Hún átti eftir að sýna heiminum listina sína. Hún átti svo mikið eftir.“
Tóta klædd í sína eigin hönnun.Juliette Rowland

Heiðrar systur sína sem listamann

„Allir takast á við sorgina á sinn hátt og einhver partur af mér er fylltur orku og eldmóði til að klára það sem hún byrjaði á. 

Í vetur fór ég að hugsa hvernig ég gæti gert akkúrat það, heiðrað hana sem listamann og haldið verkefninu áfram. 

Tóta fór á LungA alveg síðan hún var unglingur, fyrst í vinnusmiðjur og seinna sem bæði partur af LungA teyminu og sem sjálfstætt starfandi listamaður. Það var aldrei spurning að ég þyrfti að gera eitthvað þar. Ég sendi skilaboð á vinkonu systur minnar í mars, Björt Sigfinnsdóttur, sem er einn af stofnendum LungA listahátíðarinnar og allt fór af stað.“

Aðspurð um hvernig undirbúningur fyrir sýninguna hefur gengið segir Vala:

„Undirbúningsferlið hefur gengið upp og ofan en merkilega vel miðað við hvað það er ólýsanlega sárt og erfitt að gera þetta án hennar. 

Það koma dagar sem ég get ekki farið inn í herbergið hennar eða skrifað nafnið hennar á blað, hvað þá skipulagt sýningu í hennar nafni. Ég gæfi allt fyrir að hafa hana hjá mér en hún er að fylgjast með og leiða mig í gegnum ferlið. 

Ég er líka með einstakt teymi mér til halds og trausts við skipulagningu og útfærslu á sýningunni, Helenu Aðalsteinsdóttur og Katerina Spathi sem voru líka miklar vinkonur systur minnar og auðvitað mömmu okkar.“

Mikil og skapandi arfleifð

Tóta skildi eftir sig mikla arfleifð í hönnun sinni og Vala segir mikilvægt að sköpun systur sinnar lifi áfram.

„Ég vil að fólk komi á sýninguna og upplifi hvað hún var einstakur listamaður. Hvað hún var hæfileikarík, lífsglöð, glysgjörn og litrík og síðast en ekki síst orkuna sem fylgdi henni fram á síðasta dag. Á sýningunni sést líka hvað hún bar ómælda virðingu fyrir prjóni, aðferðinni sem hún valdi sér til að skapa.“

Sýningin býr yfir öllum tilfinningaskalanum og verður mörgum erfið en á sama tíma ómetanleg.

„Fyrir þá sem þekktu hana persónulega verður sýningin erfið, það verða verk í vinnslu sem hún hafði ekki tök á klára og það sýnir hvað lífið er viðkvæmt, ósanngjarnt og hverfult. En það er mikilvægt að minna sig á hvað hún skildi mikið eftir sig af dásamlegum listaverkum og, sama hversu klisjukennt það hljómar, að hún er ennþá hjá okkur,“ segir Vala að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×