Enski boltinn

Richarlison að ganga í raðir Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Richarlison í baráttu við Christian Romero í vor. Þeir verða að öllum líkindum liðsfélagar á næsta tímabili.
Richarlison í baráttu við Christian Romero í vor. Þeir verða að öllum líkindum liðsfélagar á næsta tímabili. Tony McArdle/Everton FC via Getty Images

Brasilíski framherjinn Richarlison er við það að ganga í raðir Tottenham Hotspur frá Everton, en félögin tvö hafa náð samkomulagi um kaupverð á leikmanninum.

Samkvæmt heimildum Sky Sports greiðir Tottenham allt að 60 milljónir punda fyrir leikmanninn, en þar af eru um tíu milljónir í árangurstengdar bónusgreiðslur.

Þá segja þessir sömu heimildarmenn að forráðamenn Everton hafi ekki verið mjög ánægði með verðið sem þeir fá fyrir framherjann. Vegna fjárhagsstöðu Everton hafi þeir þó þurft að taka tilboðinu til að standast reglur ensku úrvalsdeildarinnar um ágóða og sjálfbærni.

Félagsskiptasérfærðingurinn Fabrizio Romano hefur einnig sagt frá félagsskiptunum á Twitter-síðu sinni þar sem hann lætur orðin „here we go“ fylgja með, en það þýðir yfirleitt að hann hafi fengið fréttirnar staðfestar.

Richarlison mun ganga í gegnum læknisskoðun í heimalandi sínu, Brasilíu, á næstu dögum áður en félagsskiptin til Tottenham ganga endanlega í gegn. Hann verður fjórði leikmaðurinn sem Antonio Conte fær til liðsins í sumar, en áður höfðu markvörðurinn Fraser Forster, miðjumaðurinn Yves Bissouma og kantmaðurinn Ivan Perisic skrifað undir samninga við liðið.

Richarlison var markahæsti leikmaður Everton á seinustu leiktíð með tíu mörk í 30 deildarleikjum. Alls hefur hann skorað 43 mörk í 135 leikjum fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni og þá á hann að baki 36 leiki fyrir brasilíska landsliðið þar sem hann hefur skorað 14 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×