Erlent

Vill að hægt verði að gelda dæmda kyn­ferðis­brota­menn

Atli Ísleifsson skrifar
Ebba Busch í kosningabaráttunni 2018.
Ebba Busch í kosningabaráttunni 2018. EPA

Ebba Busch, formaður Kristilegra demókrata í Svíþjóð, vill að hámarksrefsing fyrir nauðgun verði hækkuð í landinu í 25 ára fangelsi. Þá skuli það í sumum tilvikum sett sem skilyrði fyrir lausn úr fangelsi að dæmdir kynferðisbrotamenn séu geldir.

Flokkurinn vill að gripið verði til harðra aðgerða til að stemma stigu við tíðum nauðgunum og kynferðisbrotum í Svíþjóð. „Á hverjum degi er tilkynnt um 27 nauðganir. Hvað þurfa að líða margir dagar áður en ríkisstjórnin grípur til aðgerða,“ spyr Busch.

Hún segir í myndskilaboðum á samfélagsmiðlum að í sumum tilfellum, þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum, eigi sömuleiðis að vera hægt að dæma menn í lífstíðarfangelsi.

Sömuleiðis eigi í sumum tilvikum að setja það sem skilyrði fyrir lausn dæmdra kynferðisbrotamanna úr fangelsi að þeir séu vanaðir með lyfjameðferð.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×