Viðskipti innlent

Verð­bólgan étur upp kaup­máttinn og skapar ó­vissu fyrir kjara­samninga­við­ræður í haust

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. Vísir

Mikil verðbólga hefur minnkað kaupmátt töluvert og er mjög löngu tímabili aukins kaupmáttar nú lokið að mati hagfræðideildar Landsbankans. Hagfræðingur hjá bankanum segir viðbúið að það taki einhver ár að ná verðbólgunni niður og að erfið staða blasi við í kjarasamningsviðræðum í haust.

Í nýjustu greiningu Landsbankans kemur fram að launavísitalan hafi hækkað um 8,6 prósent á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur launa aukist um 0,9 prósent milli maímánaða 2021 og 2022. Kaupmáttur var engu að síður 1,5 prósentustigum minni en hann var í janúar, þegar kaupmáttur var sá mesti í sögunni.

Verðbólga hefur undanfarið hækkað óvenju mikið en hún mældist 7,6 prósent í maí og ársverðbólgan er nú 8,8 prósent. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir landsmenn hafa búið við nokkuð einstakar aðstæður þar sem kaupmáttur hafi aukist stöðugt í hið minnsta frá árinu 2015.

„Stundum hefur kaupmátturinn aukist verulega mikið á hverju ári, minna núna, hann stendur í stað en svo koma áfangahækkanir inn á milli eins og gerðist núna í janúar og aftur í apríl og þá hoppar kaupmátturinn aðeins en annars er hann á leiðinni niður og ástæðan er auðvitað þessi mikla verðbólga,“ segir Ari.

Langt á milli aðila

Verðbólgan éti nú kaupmáttinn upp smám saman og ljóst sé að ekki væri von á frekari launahækkunum á þessu samningstímabili, sem ljúki í lok október. Þannig eigi kaupmáttur aðeins eftir að fara niður á við það sem eftir væri af þessu ári og viðbúið að verðbólga héldi áfram að hækka.

„Það er alveg útilokað að nokkrar launahækkanir haldi í við þessa verðbólgu sem er. Markmiðið hjá okkur er að vera með tvö til þrjú prósent verðbólgu en við erum núna í átta til níu prósent. Að ná henni niður í tvö til þrjú prósent tekur alla vega tvö ár þannig við verðum í þessari stöðu áfram,“ segir Ari.

Ari segir ljóst að erfið staða blasi við í kjaraviðræðum í haust. „Það verður bara mjög erfitt að ná endum saman og langt á milli aðila. Aðstæður eru auðvitað þannig að það er mikil óvissa og við erum í umhverfi sem við þekkjum ekkert sérstaklega vel,“ segir hann.

Laun verkafólks hækka mest

Ef litið er til launaþróunar ákveðinna hópa má sjá að laun hafa hækkað eilítið meira á opinbera markaðinum en hinum almenna frá því á fyrsta ársfjórðungi 2021. Launabreytingar hafa því jafnast milli markaða eftir að óvenju mikið bil myndaðist í upphafi árs 2021 og stendur nú í sjö prósentum á hinum almenna og 7,5 prósent á hinum opinbera. 

Ef litið er til starfsstétta skera tvær stéttir sig nokkuð úr. Laun verkafólks hafa hækkað mest, um 9,1 prósent, og því næst laun þjónustu-, afgreiðslu- og sölufólks, 7,9 prósent, en laun annarra stétta hafa hækkað í kringum sex prósent.

Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 6,2 prósent þannig kaupmáttur hafði annað hvort lækkað eilítið eða staðið í stað meðal sumra hópa.

Hægt er að nálgast Hagsjá Landsbankans í heild sinni hér. 


Tengdar fréttir

Mikil­vægast að spenna bogann ekki of hátt við lán­töku

Hagfræðingur segir ólíklegt að verðbólga hjaðni á næstunni, þótt hægja muni á henni. Vaxtabyrði óverðtryggða húsnæðislána hafi aukist verulega vegna vaxtahækkana að undanförnu og fólk verði að varast að spenna bogann of hátt.

„Við þessar að­stæður þurfa stjórn­völd að fara að stjórna“

Verðbólga hefur ekki mælst meiri síðan haustið 2009, og spár benda til þess að hún hækki enn frekar. Formaður fjárlaganefndar Alþingis segir að vel sé fylgst með stöðunni en þingmaður stjórnarandstöðunnar telur að grípa þurfi til aðgerða áður en það verður of seint.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×