Sport

Ekki víst hvort Ronaldo fari með til Taílands og Ástralíu

Hjörvar Ólafsson skrifar
Cristiano Ronaldo er staddur í Portúgal þar sem hann veltir framtíð sinni fyrir sér. 
Cristiano Ronaldo er staddur í Portúgal þar sem hann veltir framtíð sinni fyrir sér.  Vísir/Getty

Forráðamenn Manchester United eru ekki vissir um hvort Cristiano Ronaldo muni fara með liðinu til Taílands og Ástralíu á undirbúningstímabilinu sem nýhafið er.

Ronaldo er ekki mættur til æfinga hjá Manchester United en liðið hóf undirbúning sinn fyrir komandi keppnistímabil á Carrington-æfingasvæðinu fyrr í þessari viku.

Portúgalski framherjinn hefur tjáð forráðamönnum Manchester United að hann sé fjarverandi af fjölskylduástæðum en hann er staddur í heimalandi sínu.

Framtíð Ronaldos hjá Manchester United er í óvissu en Jorge Mendes, umboðsmaður hans, er að kanna þá möguleika sem eru til staðar fyrir skjólstæðing sinn.

Mendes ku hafa átt viðræður við Todd Boehly, sem nýverið keypti meirihluta í Chelsea, um komu Ronaldos til Lundúnafélagisns. Þá eru Bayern München, Barcelona og Napoli einnig nefnd til sögunnar sem mögulegir næstu áfangastaðir á ferli hans.

Erik ten Hag er byrjaður að móta hóp sinn hjá Manchester United en tilkynnt var um komu bakvarðarins Tyrell Malacia fyrr í dag. Þá greina enskir fjölmiðlar frá því að Christian Eriksen verði kynntur til leiks á Old Trafford innan tíðar.

Manchester United er svo í viðræðum við Barcelona um kaup á Frenkie de Jong og Ajax um að kaupa Lisandro Martinez og Antony.

Manchester United hefja leikjadagskrá sína á undirbúningstímabili sínu með því að mæta Liverpool í Bangkok á þriðjudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×