Innherji

Félag Reynis kaupir í Icelandair fyrir meira en hálfan milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Félag Reynis, sem er meðal annars stjórnarformaður Saltpay, er komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa Icelandair.
Félag Reynis, sem er meðal annars stjórnarformaður Saltpay, er komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa Icelandair.

Fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo, hefur eignast meira en eins prósenta hlut í Icelandair Group og er núna komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins.

InfoCapital, félag Reynis, er þannig í dag skráð fyrir 385 milljónum hluta að nafnvirði, sem jafngildir um 1,02 prósenta eignarhlut í flugfélaginu, en ætla má að kaupverðið – að því gefnu að allur hlutinn hafi verið keyptur í liðnum mánuði – hafi verið í kringum 550 milljónir króna sé litið til meðalgengis bréfa í Icelandair í júní.

Þetta má lesa út úr nýjum uppfærðum lista yfir helstu hluthafa fyrirtækisins.

Hlutabréfaverð Icelandair stendur núna í 1,45 krónum á hlut en á síðustu þremur mánuðum hafa þau lækkað um meira en 26 prósent. Markaðsvirði flugfélagsins er nú um 55 milljarðar króna.

Eins kunnugt er stofnaði Reynir Creditinfo Group en í mars á síðasta ári seldi hann meirihluta í fyrirtækinu til bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Samstæðan var verðmetin á bilinu 20 til 30 milljarða króna í viðskiptunum.

Í kjölfarið hefur fjárfestingafélag hans komið að kaupum á hlutum í ýmsum skráðum félögum, meðal annars keypti það fyrir um milljarð króna í Arion banka skömmu eftir söluna í Creditinfo. Þá greindi Innherji frá því í lok apríl á þessu ári að félag Reynis hefði bæst í hóp stærstu hluthafa Kviku banka með rétt rúmlega eins prósents hlut sem er í dag metinn á tæplega einn milljarð króna.

Á sama tíma og félag Reynis var að kaupa í Icelandair í liðnum mánuði þá var meðal annars hlutabréfasjóður í stýringu Íslandssjóða – IS EQUUS – að minnka stöðu sína í flugfélaginu. Sjóðurinn, sem átti eins prósenta hlut fyrir um mánuði, seldi að minnsta kosti tæplega þriðjung bréfa sinna í Icelandair og er ekki lengur að finna á lista yfir stærstu hluthafa.

Á fyrsta ársfjórðungi Icelandair á þessu ári jukust tekjur félagsins um 177 prósent frá sama tímabili árið 2021 og námu samtals 159 milljónum dala. Þá flutti félagið samtals 316 þúsund farþega í apríl sem var um 30 prósenta aukning frá fyrri mánuði. Rekstrartap félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins var 58,3 milljónir dala borið saman við 46,2 milljóna dala tap á sama fjórðungi í fyrra en þar munaði mikið um gríðarlegar verðhækkanir á eldsneyti. Hækkaði tonnið af þotueldsneyti þannig um 75 prósent á milli ára.

Hlutabréfaverð Icelandair, rétt eins og flugfélagsins Play, hefur lækkað skarpt að undanförnu. Hæst fór gengið í tæplega 2,3 krónur á hlut um miðjan febrúar á þessu ári en hefur frá þeim tíma lækkað um rúmlega 36 prósent.


Tengdar fréttir

Félag Reynis komið í hóp stærstu hluthafa Kviku

Fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo, hefur bæst við hóp stærstu hluthafa Kviku banka. Samkvæmt lista bankans yfir hluthafa sem eiga meira en eins prósents hlut fer félagið með 50 milljónir hluta, um 1,04 prósent, sem eru metnir á 1,1 milljarð króna miðað við núverandi markaðsvirði Kviku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×