Skoðun

Or­sakir í stað af­leiðinga – hættum að vera hrædd

Grímur Atlason skrifar

„Karlmenn drepa, konur ekki.“

„Við þurfum að þrengja vopnalöggjöf.“

„Endurskoða öryggisáætlun á Reykjalundi í kjölfar ofbeldis í samfélaginu.“

Þetta voru viðbrögð margra í kjölfar skotárása í Bandaríkjunum, Noregi og Danmörku auk atburða á Íslandi tengt skotvopnum og ofbeldi. Stjórnmálamenn hafa brugðist við með ofangreindum hætti og leitað þannig í einfaldar óttaskýringar. Forsætisráðherra kom m.a. fram í vikunni og talaði fyrir þrengingu vopnalöggjafar. Það er í sjálfu sér hið besta mál að fækka skotvopnum á Íslandi en tilefnið er öfugsnúið og forgangsröðunin á afleiðingaendanum í stað þess að leita orsaka.

Það er rétt að langflestir ofbeldisglæpir eru framdir af karlmönnum. Í stað þess að láta þá staðreynd takmarka okkur þurfum við að líta til orsakanna. Hvað fær þessa menn til þess að fremja voðaverk? Rannsóknir sýna að langflestir þessara karla eiga langa sögu um erfitt líf. Frumbernska hlaðin áföllum, skólaganga hlaðin vonbrigðum, einelti nær undantekningalaust og áframhaldandi einangrun og jaðarsetning út allt lífið. Fækkun vopna breytir engu um það.

Við getum ekki breytt bandarísku, norsku eða dönsku samfélagi en við getum haft áhrif á það íslenska. Geðheilbrigðismál eru gjarnan nefnd til sögunnar þegar voðaverk eru framin og rætt um að við þurfum að gera betur. Það er rétt, byrjum á réttum enda og leggjum áherslu á orsakirnar í stað þess að „festast“ í afleiðingunum.

Afleiðingar mistaka okkar

Hvers vegna skilja 50% foreldra innan tveggja ára frá fæðingu fyrsta barns?

Hvers vegna eru 20% drengja og yfir 10% stúlkna á aldrinum 10 til 18 ára með greiningar á Íslandi?

Hvers vegna mátu 81% barna í grunnskólum andlega heilsu sína góða eða mjög góða árið 2014 en einungis 57% árið 2021?

Hvers vegna ávísum við geðlyfjum til barna meira en allar aðrar þjóðir?

Hvers vegna er brottfall úr framhaldsskólum 100% hærra að meðaltali á Íslandi en í ESB og á Norðurlöndunum?

Hvers vegna eru konur 70% þeirra sem útskrifast úr háskólum en karlmenn 30%?

Hvers vegna var dánarorsök vegna vísvitandi sjálfsskaða í aldurshópnum 0 til 18 ára, sem hlutdeild af öllum andlátum, 0,9% á árunum 2000 til 2005 en 9,2% á árunum 2016 til 2020?

Hvers vegna var dánarorsök vegna vísvitandi sjálfsskaða í aldurshópnum 18 til 29 ára, sem hlutdeild af öllum andlátum, 35,7% á árunum 2016 til 2020?

Hvers vegna rak Ísland lestina þegar kom að bestu stöðum í heimi til að búa á þegar kemur að geðheilsu með einkunnina 1,6 af 10 mögulegum?

Hvers vegna er umfang geðheilbrigðismála um 25% af heilbrigðiskerfinu en fjármagni sem veitt er í það aðeins 4,6%?

Hvers vegna hefur öryrkjum, vegna geðræns vanda, fjölgað um 250% á sl. 30 árum á meðan íbúafjölgun er 40%?

Hvers vegna þykir eðlilegt að greiða 2,1 milljarð í söluþóknun vegna sölu á ríkisbanka en setja 45 m.kr. í sjálfsvígsforvarnir ungra Íslendinga á fjögurra ára tímabili?

Það voru vonbrigði að heyra forsætisráðherra Íslands tala um vopnalöggjöf, sem viðbragð við ofbeldi, í stað þess að horfa til ofangreindra spurninga. Stjórnmálafólk ætti að hafa framtíðarsýn og móta stefnu til lengri og skemmri tíma og koma með framsýnar hugmyndir sem breyta einhverju í stað þess að ala á áhyggjum og ótta og með því endurtaka sömu mistökin aftur og aftur.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Styðjum verðandi foreldra.

Gefum börnum meiri tíma og nánd með foreldrum sínum fyrstu tvö ár ævinnar.

Skipuleggjum kynslóðahverfi.

Drögum úr einsleitni í búsetu.

Stóraukum geðrækt á leikskóla, grunnskóla og framhaldsskólastigi.

Breytum skólakerfinu þannig að það taki mið af þörfum allra barna.

Kennum kennurum geðrækt og geðfræðslu.

Gerum kennslu eftirsóknarverða starfsgrein og aukum fjölbreytni innan kennarastéttarinnar.

Niðurgreiðum gagnreyndar samtalsmeðferðir.

Rjúfum fátækragildru öryrkja.

Viðurkennum mikilvægi tilgangs, hlutverks og virkni hvers og eins og gerum allt sem við getum til að hvetja til þátttöku í samfélagi okkar í stað þess að hindra eins og nú er gert.

Endurskoðum geðheilbrigðiskerfið með því að; efla samfélagsgeðþjónustuna, byggja nútímalegar geðdeildir, innleiða nýja hugmyndafræði og breyta lyfja- og greininganálgun.

Tökum upp aukna notendamiðaða nálgun og fjölgum starfsfólki með notendareynslu og fjármögnum geðheilbrigðiskerfið í takt við umfang þess.

Tökum upp mælaborð geðheilsu rétt eins og við eigum fjölmörg mælaborð fyrir efnahagsskútuna.

Já, horfum til orsaka og setjum geðheilsu þannig í forgang!

Viðmið til að draga úr fordómafullri umræðu í fjölmiðlum: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/vidmid-fyrir-fjolmidla-skyrsla.pdf

Höfundur er framkvæmdastjóri Geðhjálpar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×