Spænski tennisspilarinn Rafael Nadal hefur neyðst til þess að draga sig úr keppni á Wimbledon-mótinu sem fram fer þessa dagana.
Nadal mætir þar af leiðandi ekki Ástralanuum Nick Kyrgios í undanúrslitum á morgun og er Kyrgios því kominn í úrslitaviðureign mótsins.
Það sást nokkuð berlega að Nadal væri kvalinn þegar hann lagði Taylor Fritz að velli í átta liða úrslitum mótsins.
„Því miður þarf ég að taka þessa ákvörðun en það sáu það líklega allir að ég var að glíma við meiðsli í gær.
Nú er komið í ljós að ég er með rifinn vöðva og get ekki keppt í gegnum þau meiðsli. Ég hef velt þessu fyrir mér í allan dag og komst að lokum að þessari erfiðu niðurstöðu," sagði Nadal á fundi með blaðamönnum.
Þessi tíðindi koma í veg fyrir að Nadal geti farið með sigur af hólmi á öllum risamótum ársins eins og mögueleiki var á áður en meiðslin stöðvuðu hann.
Nadal vann opna ástralska og opna franska meistaramótin fyrr á þessu ári. Rod Laver var síðasti tennisspilarinn til þess að vinna öll risamótin í tennis karla á sama árinu en það gerði hann árið 1969.
Kyrgios mætir annað hvort Novak Djokovic eða Cameron Norrie í úrslitaleik mótsins.