Einhverjir myndu kalla strandveiðisjómennina hátekjumenn, svo vel hefur gengið á veiðunum í sumar. Meðalafli í hverjum róðri þetta sumarið nemur 750 kílóum, samkvæmt nýjustu tölum Fiskistofu, og miðað við 400 króna meðalverð fyrir kílóið af þorski gerir það 300 þúsund króna tekjur á dag.
Tólf veiðidagar hafa því gefið 3,6 milljónir króna í brúttótekjur á hvern bát að jafnaði á mánuði. Og þá eru ótaldar tekjur fyrir annan afla, en ufsinn sérstaklega hefur verið að gefa umtalsverðar aukatekjur.

En brátt er veislan búin, það hefur stefnt í að heildarkvótinn klárist upp úr 20. júlí, sem þýddi að 700 strandveiðibátar þyrftu þá að hætta veiðum. Sjómenn norðaustan- og austanlands telja sig með slíku bera skarðan hlut frá borði, þar sem bestan veiðin hjá þeim sé síðsumars.
Með loforð Vinstri grænna á bakinu um að efla strandveiðar bætti Svandís Svavarsdóttir í dag 1.074 tonnum af þorski í strandveiðipottinn. Ef því er deilt jafnt á alla báta koma 620 þúsund króna verðmæti í hlut hvers. Hjá Landssambandi smábátaeigenda áætlar Örn Pálsson framkvæmdastjóri að viðbótin dugi í fjóra til fimm daga í viðbót og telur að strandveiðarnar gætu kannski enst út mánuðinn.
Strandveiðifélag Íslands sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að til að tryggja veiðar í 48 daga á hvern bát í ár og sómasamleg lok vertíðar 31. ágúst þyrfti um það bil 3.000 tonn til viðbótar í strandveiðikvóta.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: