Hér má sjá tónlistarmyndbandið:
Snowblind skartar texta eftir þá Ásgeir Trausta og Pétur Ben og var tekið upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Um er að ræða ískalda og kraftmikla elektróník sem ef til vill gefur fyrirheit um það sem koma skal.

Að hafa ekki tök á aðstæðum
Ásgeir segir hugmyndina að laginu og textanum hafa kviknað sem ljósmynd af fólki að keyra í snjóbyl þar sem snjórinn skellur eins og stjörnuhríð á bílrúðunni.
„Fólkið er blindað af snjónum og hefur ekki alveg tök á aðstæðum.“
Textinn getur verið myndlíking fyrir ýmsar aðstæður í lífi fólks en eins og svo oft áður vonast Ásgeir til þess að fólk túlki textann á sinn eigin hátt og lesi það úr honum sem það vill.

Viðburðaríkir tímar framundan
Blaðamaður hitti á Ásgeir fyrir skömmu síðan og þar kom meðal annars fram að það er mikið á döfinni hjá þessum tónlistarmanni. Ásamt því að gefa út nýja plötu fagnar hann tíu ára afmæli plötunnar Dýrð í dauðaþögn sem naut mikilla vinsælda um heim allan. Afmælinu verður meðal annars fagnað með stórtónleikum í Hörpu þann 27. ágúst. Framundan hjá Ásgeiri er jafnframt fjöldinn allur af tónleikum um Evrópu til að kynna nýja plötu.
Uppbygging á ímyndunarafli
Leikstjóri tónlistarmyndbandsins við Snowblind er Erlendur Sveinsson.
„Markmiðið var að skapa sjónrænt efni fyrir þetta magnaða lag og að byggja upp kraftmikla atburðarrás sem byggir upp ímyndunarafl áhorfenda,“ segir Erlendur.
Myndbandið er unnið í samstarfi við Icelandair og eru Ásgeir og teymið hans þeim mjög þakklátir.
„Maður veit aldrei nákvæmlega hvað kemur út úr svona verkefni þegar lagt er af stað í það en Icelandair þorir og treystir listafólkinu og stendur með útkomunni þótt hún sé stundum ekki það sem lagt var upp með. Það er gaman að sjá að Icelandair er til í að styrkja íslenska tónlist á þennan hátt. Fyrirtækið hefur auðvitað verið dyggur stuðningsaðili íslenskrar tónlistar um árabil en aðstoð við gerð tónlistarmyndbanda er ný og skemmtileg nálgun sem getur skipt mjög miklu máli fyrir tónlistarfólk.“