Handbolti

Ítalir tóku toppsætið og Ísland mætir Slóvenum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslensku strákarnir tryggðu sér annað sæti milliriðilsins í dag með öruggum sigri gegn Króötum.
Íslensku strákarnir tryggðu sér annað sæti milliriðilsins í dag með öruggum sigri gegn Króötum. HSÍ

Ítalir tryggðu sér toppsæti neðri milliriðils tvö, riðli okkar Íslendinga, með fimm marka sigri gegn Svartfellingum í dag á EM U20 ára landsliða í handbolta í dag, 31-26. Íslenska liðið hafnar því í öðru sæti riðilsins og mætir Slóvenum í leik sem ákvarðar hvort liðið leikur um 9. eða 11. sæti mótsins.

Íslenska liðið tryggði sér í það minnsta annað sæti riðilsins með afar öruggum 13 marka sigri gegn Króötum, 33-20. Ítalska liðið þurfti því í það minnsta jafntefli gegn Svartfellingum í dag til að tryggja sér sigur í riðlinum.

Svartfellingar byrjuðu leikinn betur og náðu fljótt fimm marka forskoti. Ítalir vöknuðu þá til lífsins og snéru taflinu sér í vil áður en flautað var til hálfleiks, en ítalska liðið fór með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn, 14-12.

Mikið jafnræði var með liðunum lengst af í síðari hálfleik, en ítalska liðið var þó alltaf skrefinu framar. Ítalir stungu svo af undir lok leiksins og unnu að lokum góðan fimm marka sigur, 31-26.

Ítalir munu því leika gegn Færeyingum sem höfnuðu í öðru sæti í neðri millirili eitt, á meðan Íslendingar mæta Slóvenum sem unnu þann riðil. Sigurliðin úr þessum leikjum munu svo leika um 9. sæti mótsins, en tapliðin um 11. sæti. Efstu 11 sæti mótsins gefa þátttökurétt á HM.

Leikur Íslands og Slóveníu fer fram á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×