Á dögunum greindi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra frá því á Instagram að farangurinn hennar hafi ekki skilað sér með henni á leið heim erlendis frá. Áslaug gat þó andað rólega þar sem hún hafði sett AirTag staðsetningartæki frá Apple í ferðatöskuna. Innkaupastjóri Macland segir staðsetningartækið hafa selst upp í kjölfar umfjöllunarinnar.
Áslaug segist hafa tamið sér það að vera með AirTag í ferðatöskunni sinni, þó yfirleitt þegar um millilendingar væri að ræða. Hún vissi því upp á hár hvar taskan væri niðurkomin þegar hún lenti á Íslandi án hennar. Taskan hafði orðið eftir á Tenerife. Leið töskunnar lá þó ekki beina leið heim eftir að þetta uppgötvaðist en taskan fór til Lúxemborgar og Noregs áður en hún lenti loks hér heima og gat Áslaug fylgst með ferðum töskunnar með hjálp staðsetningartækisins.
Áslaug greindi frá þessu láni í óláni á Instagram reikning sínum.
Seldist upp á landinu
Í kjölfar umræðu Áslaugar á Instagram virtist AirTag seljast upp en Gunnar Máni Arnarson, innkaupastjóri Macland segir í skriflegu svari til fréttastofu að fyrirtækið passi alla jafna að eiga AirTag á lager í því magni sem selst í venjulega. „Ég vil því meina að þegar ferðatösku fréttin fór í loftið hafi eftirspurnin stóraukist og kláraðist það sem til var á lager á methraða,“ segir Gunnar.
Hann segir AirTag hafa selst í tugum eininga frá því á föstudag og viti hann ekki betur en svo að varan hafi selst upp á landinu. Varan sé mjög sniðug fyrir iPhone notendur til þess að staðsetja hinar ýmsu eigur, „hvað þá ferðatöskuna sína miðað við þær fréttir sem hafa verið upp á síðkastið að þær komi ekki alltaf með vélunum á leiðarenda. En margir setja þetta á bíllyklanna sína, í veskið sitt, reiðhjólin sín svo eitthvað sé nefnt,“ segir Gunnar.