Erlent

Dómari hafnaði kröfum Heard

Samúel Karl Ólason skrifar
Amber Heard hefur verið gert að greiða Johnny Depp tíu milljónir dala í skaðabætur fyrir meiðyrði og 350 þúsund dali i refsibætur.
Amber Heard hefur verið gert að greiða Johnny Depp tíu milljónir dala í skaðabætur fyrir meiðyrði og 350 þúsund dali i refsibætur. Getty/Win McNamee

Bandarískur dómari neitaði í gær að fella niður tíu milljóna dala miskabætur sem leikkonunni Amber Heard hefur verið gert að greiða fyrrverandi eiginmanni sínum, Johnny Depp, fyrir meiðyrði. Depp vann meiðyrðamál gegn Heard í síðasta mánuði en það sneri að grein sem hún skrifaði á vef Washington Post þar sem hún sagðist hafa orðið fyrir heimilisofbeldi.

Réttarhöldin voru sýnd í beinni útsendingu á netinu og vöktu þau gríðarlega mikla athygli á heimsvísu.

Lögmenn Heard lögðu fyrr í þessum mánuði fram kröfu um að úrskurðurinn í meiðyrðamálinu, sem naut gífurlegrar athygli á heimsvísu, yrði felldur niður. Sú krafa byggði á því að sönnunargögn hafi ekki stutt úrskurðinn í áðurnefndu máli og að einn kviðdómenda hafi mögulega ekki raunverulega átt að vera í kviðdómnum.

Þar að auki sögðu lögmennirnir að skaðabæturnar væru of háar.

Sjá einnig: Heard vill úrskurðinn gegn sér felldan niður

Penny Azcarate, áðurnefndur dómari í Virginíu, hafnaði þó kröfum Heard í gær og gaf lítið fyrir öll rök lögmanna hennar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Azcarate sagði í úrskurði sínum að kviðdómandinn, sem lögmenn Heard höfðu sagt nauðsynlegt að skoða nánar, hefði verið kannaður ítarlega og að ekkert benti til þess að kviðdómendur hefðu gert eitthvað rangt. Dómurinn væri bundinn ákvörðun þeirra.

Að öðru leyti tíundaði dómarinn ekki ástæðurnar fyrir því að hún hafnaði kröfum Heard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×