Innlent

Sea trips á­frýjar dómi í deilunni við Sam­göngu­stofu

Árni Sæberg skrifar
Deila um skráningu skipsins Amelíu Rose fer fyrir Landsrétt.
Deila um skráningu skipsins Amelíu Rose fer fyrir Landsrétt. Sea trips

Sea trips ehf., sem gerir út skemmtiskipið Amelíu Rose, hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem sýknaði Samgöngustofu af öllum kröfum fyrirtækisins, til Landsréttar.

Samgöngustofa var í fyrradag sýknuð af kröfu Seatrips ehf. um að ákvörðun stofnunarinnar um að skipið væri skráð sem nýtt skip væri felld úr gildi. Skipinu hefur ítrekað verið snúið í land af Landhelgisgæslunni að undirlagi Samgöngustofu vegna þess að það hefur siglt með of marga farþega of langt út á haf, miðað við þær öryggiskröfur sem gerðar eru til nýrra skipa.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að málið muni fá flýtimeðferð hjá Landsrétti og forsvarsmenn fyrirtækisins séu sannfærðir um að niðurstöðu héraðsdóms verði snúið.

„Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur olli okkur vonbrigðum og kom okkur í raun verulega á óvart. Við teljum að dómurinn sé rangur og að sönnunarmat það sem hann byggir á sé sömuleiðis rangt. Málið er ekki eins flókið og Samgöngustofa vill meina. Það leikur sér enginn að því að standa í svona stríði við opinberar stofnanir, en við sjáum engan annan kost í stöðunni en að halda málarekstrinum áfram til að vernda hagsmuni okkar og fyrirtækisins,“ er haft eftir Svani Sveinssyni, framkvæmdastjóra og eins eigenda Sea trips.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×