Fótbolti

Guðrún: Ætlum að sækja stig og fara áfram

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðrún og Alexandra Jóhannsdóttir voru svekktar eftir leik.
Guðrún og Alexandra Jóhannsdóttir voru svekktar eftir leik. Vísir/Vilhelm

Guðrún Arnardóttir átti fínan leik í vörn Íslands í dag í jafnteflinu gegn Ítalíu. Hún var svekkt í leikslok og sagði að íslenska liðið ætlaði sér að sækja stig gegn Frökkum.

„Við erum svolítið súrar eftir þennan leik. Mér fannst við fá færi til að skora fleiri mörk en að sama skapi voru þær mikið með boltann í seinni hálfleik. Okkur líður vel að verjast og finnst þægilegt að verjast,“ sagði Guðrún í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur eftir leik í dag.

Ísland skoraði mark strax í upphafi og sagði Guðrún að tilfinningin þá hefði verið góð.

„Hún var góð. Markið kom upp úr föstu leikatriði, löngu innkasti frá Sveindísi og það var gott að fá það mark en við erum ekki sáttar að ná ekki að halda núllinu.“

„Við vorum sáttar að leiða í hálfleik en við höfðum sénsa til að skora annað mark. Við vorum staðráðnar í að halda áfram og vissum að það kæmi tímabil þar sem við þyrftum að verjast og ætluðum að sækja annað mark en það tókst ekki.“

Guðrún tók undir þau orð Svövu að liðinu hefði gengið illa að halda boltanum innan liðsins.

„Við náðum ekki að halda boltanum hærra á vellinum, vorujm að taka langa bolta en náðum ekki stjórn hærra á vellinum og fengum þær aftur framan í okkur. Það er erfitt að skapa eitthvað þegar við náum ekki stjórn á boltanum frammi.“

Guðrún segir að það sé allt hægt gegn Frökkum í næsta leik.

„Við erum ekki hættar, það er einn leikur eftir. Frakkarnir eru sagðir vera bestar í riðlinum en þetta er fótbolti og það er allt hægt. Við ætlum að sækja stig og fara áfram.“


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Sandra maður leiksins í markinu

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Ítalíu í öðrum leik liðsins á Evrópumótinu á Englandi. Hér er hægt að sjá einkunnir íslensku leikmannanna í leiknum þar sem Sandra Sigurðardóttir í markinu var valin maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×