Erlent

Rauð hitaviðvörun gefin út í fyrsta sinn vegna allt að 40 stiga hita

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á heitum dögum er gott að kæla sig í gosbrunnum Lundúna.
Á heitum dögum er gott að kæla sig í gosbrunnum Lundúna. epa/Facundo Arrizabalaga

Breska veðurstofan hefur gefið út rauða hitaviðvörun fyrir Lundúnir og nærliggjandi svæði vegna ofsahita í næstu viku sem gæti mögulega ógnað lífi. Spár gera ráð fyrir að hitinn fari í allt að 40 stig.

Breska veðurstofan hefur gefið út rauða hitaviðvörun fyrir Lundúni og nærliggjandi svæði vegna ofsahita í næstu viku sem gæti mögulega ógnað lífi. Spár gera ráð fyrir að hitinn fari í allt að 40 stig.

Hitabylgjan gæti mögulega haft áhrif á samgöngur og innviði og veðurstofan segir að fólk muni þurfa að haga störfum og leik eftir því. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem rauð viðvörun er gefin út og veðurfræðingur BBC segir allar líkur á því að hitamet muni falla.

Hæsti hiti sem mælst hefur á Bretlandseyjum mældist í Cambridge árið 2019 og var 38,7 stig.

Hitinn verður mestur á mánudag og þriðjudag og samkvæmt spá má gera ráð fyrir að hitinn á næturnar muni ekki falla undir 25 gráður þá daga.

Íbúar um umræddum svæðum eru hvattir til þess að gæta að því að drekka nægjanlega mikinn vökva, fylgjast með viðkvæmum einstaklingum í kringum sig, hafa dregið fyrir gluggana og forðast að vera úti yfir miðjan dag.

Viðbragðsnefnd stjórnvalda, Cobra, hefur fundað um málið og þá hefur verið gefin út viðvörun í heilbrigðiskerfinu um aukið álag vegna hitans.

Hér má finna ítarlega umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×