Vísir greindi frá því fyrr í dag að ákvörðun félagsins hafi skapað talsvert fjaðrafok í Vestmannaeyjum en Eyjamenn ætluðu að færa meira fé til knattspyrnudeildarinnar á kostnað handknattleiksdeildar.
Aðalstjórn fundaði klukkan 15.00 í dag með forsvarsmönnum handknattleiks- og knattspyrnudeildar og náðist þar samkomulag um draga fyrri ákvörðun til baka og skipa sáttahóp sem mun ákvarða hvernig skiptingu tekna verður í framhaldinu.
„Sáttahópurinn skal skipaður fimm aðilum, tveimur aðilum frá hvorri deild í félaginu, alls 4 aðilar, auk formanns hópsins sem mun verða skipaður sérstaklega (af óháðum aðila). Formaður hópsins mun leiða vinnu hans og skal hópurinn skila tillögum til aðalstjórnar félagsins eigi síðar en 25. febrúar 2023. Aðalstjórn mun í framhaldinu taka niðurstöðurnar til yfirferðar með báðum deildum félagsins fyrir aðalfund félagsins árið 2023,“ segir í tilkynningu ÍBV en allir málsaðilar munu skuldbinda sig að una niðurstöðu sáttahópsins.