Aðalfjörið í dag verður á Árbæjarsafni frá klukkan eitt til fimm, þar sem tólf íslenskir fjárhundar munu gleðja gesti og gangandi. Aðeins mennskir gestir eru þó velkomnir á safnið, segir Sóley Ragna Ragnarsdóttir forsvarsmaður vinnuhóps Dags íslenska fjárhundsins.
„Eins og það væri gaman að allir gætu kíkt með íslenska fjárhundinn sinn á okkur þá bara því miður er það ekki í boði. En öllum velkomið að koma hundlausum og kíkja á þessa skemmtilegu hunda sem verða þarna og sýna jafnvel einhverjar skemmtilegar listir í dag,“ segir Sóley.
Þá verður viðburður í Glaumbæ í Skagafirði.
„Síðan verða göngur hingað og þangað um landið og í rauninni fólk úti um allt með íslensku fjárhundana sína að vekja athygli á tegundinni.“
Brosandi með dillandi skott
Dagskrá verður einnig á netinu, þar sem hægt er að nálgast ýmis erindi, einkum fyrir erlenda velunnara íslenska fjárhundsins. Sóley segir áhuga á tegundinni einmitt hafa aukist mjög síðustu ár úti í heimi.
„Það hefur sérstaklega verið mikill áhugi á tegundinni í Skandinavíu, og sérstaklega í Svíþjóð og Danmörku, og vissulega á fleiri stöðum í Evrópu. Og síðan er hún að vinna sér inn töluverðan aðdáendahóp í Bandaríkjunum líka. Þannig að tegundin er að verða þokkalega eftirsótt um allan heim. Sem er náttúrulega frábært ef maður horfir til þess að fyrir um sjötíu árum síðan var tegundin svo gott sem í útrýmingarhættu.“
Sjálf á Sóley íslenska fjárhundinn Dranga Kappa Keisara, 6 ára, og hún er ekki í vafa um að tegundin sé sú besta í heimi.
„Þeir eru mjög sjálfstæðir en virkilega húsbóndahollir, skemmtilegir í vinnu og alltaf glaðir, með dillandi skottið og taka brosandi á móti þér.“