Erlent

Vara áhugasama við því að nálgast rostunginn Freyju

Samúel Karl Ólason skrifar
Freyja hefur sökkt nokkrum smábátum í höfnum Noregs.
Freyja hefur sökkt nokkrum smábátum í höfnum Noregs.

Fiskistofa Noregs varaði í morgun fólk við því að nálgast frægan rostung of mikið. Rostungurinn Freyja hefur verið að valda usla í smábátahöfn skammt frá Osló þar sem hún hefur meðal annar sökkt bátum. Ekki kemur til greina að drepa Freyju.

Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að Freyja sé villt dýr og vegi um sex hundruð kíló. Rostungar séu friðaðir og bannað sé að trufla þá að óþörfu. Rostungar séu ekki endilega eins klunnalegir og hægfara og þeir virðist vera.

Rostungar eigi sér lítið af óvinum í náttúrunni og hræðist menn ekki. Freyja hikar ekki við að nálgast menn og kemur sér fyrir á flotbryggjum og um borð í litlum bátum, sem eiga það til að sökkva undan henni.

Fiskistofa varar þó við því að ef rostungurinn telji sér ógnað geti hún brugðist við.

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að verið sé að leita leiða til að bregðast við þeim truflunum og skemmdum sem Freyja hefur valdið en ekki komi til greina að drepa dýrið.

Í frétt NRK segir að Freyja sé farin að laða að ferðamenn og Norðmenn hafi lagt land undir fót til að berja hana augum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Freyja vekur athygli í Noregi en fyrr í sumar kom hún sér fyrir í höfn bæjarins Kragerø.

Vert er að minna lesendur á rostunginn Valla, sem kom í heimsókn hingað til lands í fyrra, eftir að hafa gert garðinn frægan við strendur Írlands við að skríða um borð í litla báta og sökkva þeim.

Sjá einnig: Valli er kominn aftur, aftur

Hér að neðan má sjá myndefni af Freyju bæði í Osló og Kragerø.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×