Vitni sem þekkja störf Hvíta hússins af eigin raun segja fyrrum forsetann ekki hafa haft samband við neina löggæsluaðila eða öryggisgæslu á meðan á árásinni á þinghúsið stóð. Þessi vitnisburður var nýttur til þess að færa rök fyrir vanrækslu Trump í starfi. Þetta kemur fram í umfjöllun CNN.
Fyrrverandi talskona Hvíta hússins segir blaðamannafulltrúa þess tíma, Kayleigh McEnany hafa sagt við sig að „forsetinn vildi ekki að minnst væri á frið“ í tísti sem hafi verið í bígerð. Einnig á Trump að hafa sagt í tökum fyrir myndbandið sem hann sendi frá sér að lokum til þess að segja stuðningsfólki sínu að fara heim, að hann vildi ekki taka þar fram að kosningunum væri í raun lokið.
Þrátt fyrir aðgerðarleysi Trump þann daginn sem árásin var gerð þann 6. janúar, á fyrrverandi varaforsetinn Pence að hafa hringt í þáverandi varnarmálaráðherra og sagði honum að kalla til löggæsluafl og róa aðstæður.