Körfubolti

A-deildarsæti og úrslitaleikur undir hjá strákunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Íslenski bekkurinn fagnar í leiknum gegn Svíum.
Íslenski bekkurinn fagnar í leiknum gegn Svíum. FIBA

U20 ára landslið karla í körfubolta komst í gær í undanúrslit á Evrópumóti B-deildar í Georgíu eftir sigur á Svíum. Finnar bíða íslenska liðsins í undanúrslitunum þar sem mikið er undir.

Íslenska liðið hóf mótið á að tapa fyrir Eistlandi en unnu svo Holland, Rúmeníu og Lúxemborg til að tryggja sæti sitt í 8-liða úrslitum. Þar unnu þeir 77-71 sigur á ósigruðu liði Svíþjóðar til að tryggja sæti sitt í undanúrslitum.

Þorvaldur Orri Árnason úr KR var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 28 stig, níu fráköst og þrjá stolna bolta en næst stigahæstur var Sigurður Pétursson með tíu stig, átta fráköst og heila sex stolna bolta.

Finnar höfðu betur gegn Búlgaríu og bíður íslenska liðsins því önnur Norðurlandaþjóð í dag. Leikurinn hefst klukkan 17:15 og verður sýndur beint á YouTube-rás mótsins, en útsendinguna má nálgast í spilaranum að neðan.

Fari svo að Ísland vinni Finna kemst liðið ekki aðeins í úrslit mótsins heldur mun það einnig tryggja sæti sitt í A-deild Evrópumótsins fyrir næsta mót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×