Erlent

Bolsonaro sækist eftir endurkjöri en fylgið dvínar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bolsonaro á kosningafundi á sunnudag.
Bolsonaro á kosningafundi á sunnudag. Getty

Jair Bolsonaro forseti Brasilíu hóf kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í gær á kosningafundi Frjálslynda flokksins í Rio de Janeiro. Í ræðu sinni lagði Bolsonaro áherslu á guð, byssur og fjölskylduna. Hann freistar nú þess að höggva á forskot helsta keppinautar síns, sósíalistann og forsetann fyrrverandi Lula da Silva sem nýtur mun meira fylgis.

Lula da Silva gegndi embætti forseta á árunum 2003 til 2011. Kosið verður eftir rúma tvo mánuði en hægri öfgaflokkur Bolsonaros tilnefndi hann sem forsetaefni flokksins á fjölmennum kosningafundi nú á sunnudag. 

Bolsonaro hefur harðlega gagnrýnt rafrænt kosningakerfi Brasilíu undanfarið án þess að fótur sé fyrir þeirri gagnrýni. Margir telja því að forsetinn muni ekki viðurkenna ósigur, kæmi til þess í október.

Forsetinn minntist þó ekki á kosningakerfið í gær, heldur lagði hann áherslu á íhaldssamar skoðanir sem hafa fleytt honum langt áður. Hann lofaði herinn einnig í hástert sem hann sagði á sínu bandi.

„Herinn er með okkur í liði,“ sagði hann við stuðningsfólkið. „Þetta er her sem líður ekki spillingu og vill gagnsæi.“

Verðbólgan hefur leikið Bolsonaro grátt undandarið og hefur hann lækkað í fylgi um 20 prósent síðustu mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×