Erlent

Ólöglega bruggað áfengi varð 28 að bana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vinodbhai Jadavbhai Solanki er fluttur á sjúkrabörum eftir að hafa veikst af neyslu áfengis í Ahmedabad á Indlandi.
Vinodbhai Jadavbhai Solanki er fluttur á sjúkrabörum eftir að hafa veikst af neyslu áfengis í Ahmedabad á Indlandi. AP/Ajit Solanki

Að minnsta kosti 28 eru látin og um sextíu alvarlega veik eftir að hafa drukkið ólöglega bruggað áfengi sem búið var að blanda með óþekktum efnum í Gujarat-fylki.

Mukesh Parmar, embættismaður þar í landi, segir dauðsföllin hafa orðið í héruðunum Ahmedabad og Botad í Gujarat-fylki, þar sem framleiðsla, sala og neysla áfengis eru ólögleg. Það sé ekki enn vitað hvaða efni hafa verið blandað við áfengið.

Ashish Gupta, lögreglustjóri Gujarat-fylkis, segir nokkra grunaða bruggara sem voru viðriðnir söluna á áfenginu hafa verið handtekna.

 Dauðsföll af völdum ólöglega bruggaðs áfengis eru algeng í Indlandi, þar sem áfengi á svörtum markaði er ódýrt og gjarnan blandað með efnum á borð við skordýraeitur til að styrkja það. Árið 2020 létust að minnsta kosti 120 manns eftir að hafa drukkið spillt áfengi í Punjab-fylki í Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×