
Kaupmáttur launa náði sögulegu hámarki í janúar á þessu ári eftir stigvaxandi aukningu allt frá haustmánuðum 2015. Eftir að verðbólga fór að hækka hratt skömmu fyrir síðustu áramót tók kaupmáttur að minnka í sumar.

Í Hagsjá Landsbankans í dag kemur fram að kaupmáttur í júní síðast liðnum hafi verið 2,9 prósentum minni en í janúar á þessu ári en þá hafi kaupmátturinn náð sögulegu hámarki. Kaupmáttarrýrnunin milli júní á þessu ári og júní í fyrra væri þó öllu minni eða 0,9 prósent og hefði þá ekki verið minni frá því í desember 2020.

Í Hagsjánni segir að reikna megi með að kaupmáttur haldi áfram að minnka þar sem verðbólgan væri enn mikil og og ekki verði frekari launahækkanir á gildistíma núgildandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þeir renna sitt skeið í október og má búast við að erfiðlega gangi að gera nýja samninga í haust í því óvissuásandi sem nú ríkir.
Ástandið á vinnumarkaðnum þar sem mikil eftirspurn er eftir starfsfólki hjá veitingahúsum og gististöðum endurspeglast í launaþróuninni undanfarna 12 mánuði. Þannig hækkaði launavísitala almennt um 8,5 prósent frá apríl í fyrra til apríl í ár.

Að jafnaði var hækkuðu laun örlítið meira á opinbera vinnumarkaðnum en hinum almenna en þó öllu meira hjá sveitarfélögunum. Hins vegar hækkuðu laun um 12,7 prósent á veitinga- og gististöðum, sem vætnanlega hafa þurft að hækka laun til að fá til sín starfsfólk eftir lágdeyðuna sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum.