Sport

Fyrirgefur lögreglumanni sem reif í hann og hrinti

Valur Páll Eiríksson skrifar
AJ Dillon ber engan kala til lögreglumannsins eftir atvikið.
AJ Dillon ber engan kala til lögreglumannsins eftir atvikið. Quinn Harris/Getty Images

Lögreglan í Green Bay í Bandaríkjunum mun fara yfir atvik sem átti sér stað á æfingaleik Manchester City og Bayern Munchen á Lambeau-vellinum í borginni. Lögreglumaður hrinti AJ Dillon, hlaupara Green Bay Packers í NFL-deildinni.

Manchester City og Bayern Munchen mættust í æfingaleik á Lambeau-vellinum á laugardag en um var að ræða fyrsta fótboltaleikinn sem fer þar fram. Leikurinn frestaðist vegna mikillar rigningar og var Dillon, sem var á leiknum, beðinn um að skemmta áhorfendum á meðan biðinni stóð.

Myndskeið af atvikinu hefur farið um vefinn en þar sést lögreglumaðurinn rífa aftan í hálsmálið á Dillon og hrinda honum þegar hann bjó sig undir að taka svokallað Lambeau-stökk (e. Lambeau Leap) - frægt fagn leikmanna Green Bay þegar þeir skora snertimark á vellinum - á meðan frestuninni stóð.

„Tveir öryggisverðuir sögðu mér og hjálpuðu mér að koma niður á völlinn á meðan 30 mínútna rigningarfrestuninni stóð, svo ég gæti framkvæmt Lambeau-stökk og halda stuðningsmönnum við efnið... ég geri ráð fyrir að skilaboðin hafi farið fram á lögreglumanninum,“ sagði Dillon á samfélagsmiðlinum Twitter. Hann sagði þar enn fremur:

„Lögreglan í Green Bay samanstendur af frábæru fólki og ég er ánægður að þau mæti á leiki liðsins til að gæta öryggis okkar. Standandi þarna í hellidembu með allt þetta fólk í kring getur verið erfitt að vita hvað gengur á. Þetta er allt í góðu.“

Í tilkynningu frá lögreglunni í Green Bay í kjölfarið segir: „Það er skýrt að eitthvað misræmi varð í samskiptum milli lögreglumannsins og Hr. Dillon. Lögreglan í Green Bay kann vel að meta viðhorf og jákvæð orð Dillons. Lögreglan hefur hafið rannsókn á atvikinu.“

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×