Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fórst þú fyrst á Þjóðhátíð?
Ég fór mjög seint í lífi mínu á Þjóðhátíð. Held það hafi verið fyrst 2017 þegar ég DJ-aði fyrir Áttuna og ég hef verið hooked síðan. Hef verið heppinn að fá að spila þar síðan þá.
Hvað finnst þér skemmtilegast við þessa hátíð?
Sem tónlistarmanni finnst mér magnað að næstum 20 þúsund manns komi saman eina helgi á ári á eyju til að hafa gaman saman og hlusta á tónlist, það er eitthvað svo fallegt við þetta.
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þú stígur á svið?
Ég hef alltaf verið bendlaður við alvöru partý stemningu svo ég mun keyra tempóið upp í hundrað þúsund. Ég hef einnig verið að vinna í að endurgera mörg klassísk íslensk barnalög yfir í alvöru teknó svo ég mun hundrað prósent spila allt það, það er eitthvað fyndið við að hlusta á Í Larí Lei í hörðu teknói.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið þitt?
Ég verð að segja Á sama tíma, á sama stað með Frikka og Jóni.
Ef ég set lagið í gang þá er heilinn á mér kominn í brekkuna og mér líður alltaf jafn vel, það er eitthvað svo kósý en samt tilfinninganæmt.
Hvernig ætlar þú að undirbúa þig fyrir stóru stundina?
Ég hef alltaf haft reglu hjá mér fyrir stór gigg að hringja í besta vin minn hann Pétur Jóhann og fá hann til að taka köttinn, það kemur mér alltaf í gott skap og hann er alltaf mjög til í það.
Svo er ég líka að vinna með það að fara í appelsínubað og drekka M&M blandað kaffi, það er toppurinn!