Margir ferðamenn eru hér á landi þetta sumarið en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni nærri fjórfölduðust erlendar gistinætur á milli ára í júní. Skráðar gistinætur í heildina vori rúmlega 1,1 milljón, þar af voru gistinætur erlendra ferðamanna um 80 prósent.
Svipaða sögu má segja um fjölda erlendra farþega en þeir voru ríflega 176 þúsund í júní og fjölgaði um tæplega 134 þúsund milli ára. Spár gera ráð fyrir að um 1,6 milljónir ferðamanna komi til Íslands í ár en til samanburðar voru þeir tæplega 700 þúsund í fyrra.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir enn mikla eftirspurn til staðar þar sem Ísland sé nánast upp bókað út ágúst.
„Þetta er í rauninni bara gríðarlega gott sumar sem við erum að eiga en síðan er kannski stóra spurningin hversu lengi það endist inn í haustið,“ segir Jóhannes.
„Við sjáum að það virðist vera vel bókað svona út september og við náttúrulega vonumst til þess að sjá þetta endast lengra inn í október og nóvember, og vonandi fá góða jólavertíð,“ segir hann enn fremur.
Tímabilið gæti lengst heilt yfir en það sé yfirleitt styttra á landsbyggðinni, sem þurfi að bæta.
„Þetta er ein af stóru áskorununum sem við þurfum að vinna í, bæði greinin og stjórnvöld, að ná meiri dreifingu ferðamanna og minni árstíðarsveiflu í rauninni yfir allt landið. Það er bara verkefni sem hefur náðst ágætis árangur að sumu leyti, en í raun og veru mikið verk óunnið í því til framtíðar,“ segir Jóhannes.
Þrátt fyrir allt telur hann ferðaþjónustuna ekki komna að þolmörkum. Ljóst sé þó að þörf sé á betri mönnun, frekari uppbyggingu, og fjárfestingum á innviðum til að takast á við aukinn fjölda ferðamanna.
Viðbúið sé að næstu sumur verði einfaldari en þetta, en þó séu takmörk fyrir því hversu margir ferðamenn geti komið til landsins í framtíðinni.
„Við höfum engan sérstakan áhuga að fá einhvern sprengjuvöxt hér tíu ár inn í framtíðina eins og við vorum með hér fyrir faraldur, það býr bara til álag á innviði og annað. Við þurfum að geta unnið þetta sjálfbært upp, byggt upp innviðina og strúktúrað okkar ferðaþjónustuframboð í takt við eftirspurnina, og mér sýnist nú meiri líkur að það verði þannig heldur en hitt,“ segir Jóhannes.