Innherji

Hópur einkafjárfesta tengdur Gavia Invest kaupir í Sýn fyrir milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Samanlagður eignarhlutur Gavia Invest og þess hóps fjárfesta sem nú hefur keypt í Sýn fyrir um milljarð króna nemur nálægt 23 prósentum.
Samanlagður eignarhlutur Gavia Invest og þess hóps fjárfesta sem nú hefur keypt í Sýn fyrir um milljarð króna nemur nálægt 23 prósentum. Vísir/Hanna

Hópur fjárfesta, sem er leiddur af fjársterkum einstaklingum og er í samstarfi með nýjum stærsta hluthafa Sýnar, hefur keypt samanlagt um sex prósenta hlut í félaginu fyrir um einn milljarð króna. Viðskiptin voru kláruð fyrir opnun markaða í morgun, samtals tæplega 16 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 64 krónur á hlut, og á meðal seljenda voru lífeyrissjóðir í hluthafahópi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins, samkvæmt heimildum Innherja.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) seldi þannig meðal annars um 1,9 prósenta hlut - eftir söluna fer sjóðurinn með 8,2 prósenta hlut - fyrir 320 milljónir. 

Ekki hafa enn fengist staðfest nöfn á þeim fjárfestum sem standa einkum að baki kaupunum en hið nýstofnaða fjárfestingafélag Gavia Invest sem keypti samanlagt um 16 prósenta hlut í Sýn í liðinni viku, meðal annars allan hlut Heiðars Guðjónssonar fráfarandi forstjóra félagsins, er á meðal þeirra sem koma að viðskiptunum. Hlutur félagsins af heildarkaupverðinu er hins vegar sagður vera lítill, samkvæmt heimildum Innherja.

Rétt eins og þegar Gavia Invest keypti rúmlega 12,7 prósenta eignarhlut Heiðars fyrir um 2,2 milljarða króna í upphafi síðustu viku þá var það Arion banki sem hafði umsjón með þessum viðskiptum, sem kláruðust um nýliðna helgi, meðal annars þegar kemur að fjármögnun á kaupunum. Á fimmtudaginn í liðinni viku kom fram í flöggun til Kauphallarinnar að eignarhlutur sem er skráður í eigu Arion hefði aukist úr 3,4 prósentum í 8,7 prósent en sá hlutur er einkum vegna framvirkra samninga sem bankinn hefur gert við viðskiptavini sína með bréf í Sýn.

Í kjölfar kaupa Gavia Invest í Sýn, sem er nú stærsti einstaki hluthafinn í félaginu, hefur félagið farið fram á að boðað verði til hluthafafundar þar sem umboð nýrrar stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin. Samkvæmt heimildum Innherja áformar fjárfestingafélagið að tryggja sér tvo fulltrúa í stjórn félagsins.

Jón Skaftason, sem er í forsvari fyrir Gavia Invest og var um árabil framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að fjárfestahópurinn hefði „fylgst lengi“ með Sýn. „Við ætlum okkur að hafa virka aðkomu að rekstri félagsins og munum beita okkur fyrir aukinni verðmætasköpun í þágu allra hluthafa Sýnar.“

Jón, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Strengs fyrr á árinu, segir Sýn vera öflugt félag sem starfar á spennandi mörkuðum. „Undirliggjandi eignir félagsins eru sterkar, hvort sem litið er til innviða, fjarskiptareksturs, fjölmiðla eða annarra eigna,“ en Sýn rekur meðal annars fjarskiptafélagið Vodafone og fjölmiðlana Vísi, Stöð 2, Bylgjuna og tengda miðla.

Auk Jóns, sem fer með hlut í Gavia Invest í gegnum félagið sitt Pordoi, þá samanstendur fjárfestahópurinn af Reyni Grétarssyni, stofnanda Creditinfo, og Hákoni Stefánssyni, og auk þess félaginu E&S 101 sem er í eigu Jonathan Rubini, einn ríkasti maður Alaska og meðal stærstu eigenda Keahótela, Mark Kroloff hjá First Alaskan Capital Partners og Andra Gunnarssonar, lögmanns og fjárfestis. E&S 101 er nú þegar í hópi stærstu hluthafa fasteignafélagsins Kaldalóns.

Rubini var einnig á meðal eigenda fjarskiptafélagsins Nova og viðskiptafélagi hans Mark Kroloff, sem kemur núna að fjárfestingunni í Sýn, sat um tíma í stjórn Nova.

Reynir Grétarsson, sem er í dag meðal annars stjórnarformaður Saltpay, seldi meirihluta sinn í Creditinfo Group í mars í fyrra til bandaríska sjóðsins Levine Leichtman Capital Partners. Samstæðan var verðmetin á bilinu 20 til 30 milljarða króna í viðskiptunum. Í kjölfarið hefur fjárfestingafélag Reynis, InfoCapital, komið að stórum kaupum í ýmsum skráðum félögum og er í dag á meðal stærstu hluthafa Icelandair Group og Kviku banka.

Hlutabréfaverð Sýnar stendur nú 65 krónum á hlut og er markaðsvirði félagsins því um 17,4 milljarðar króna. Gengi bréfa félagsins hefur staðið nánast í stað frá áramótum en á síðustu tólf mánuðum hafa þau hækkað í verði um liðlega 63 prósent.

Auk Gavia Invest þá eru stærstu hluthafar Sýnar, eins og hluthafalisti félagsins leit út í byrjun síðasta mánaðar, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Birta lífeyrissjóður. Samanlagt fóru þessir fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins með um 37 prósenta hlut.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.

Fréttin var uppfærð kl. 11:14 eftir flöggunartilkynningu frá LSR.


Tengdar fréttir

Krefjast stjórnar­kjörs í Sýn

Gavia Invest ehf. hefur farið fram á að boðað verði hluthafafundar í Sýn hf., en félagið fer nú með atkvæðisrétt fyrir hlutafé í Sýn sem nemur 16,06 prósent. Þess er krafist að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×