Margir eru orðnir langeygir eftir skýrslunni sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði til að ríkisendurskoðun myndi vinna um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Málið var afar umdeilt en stjórnarandstaðan vildi að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara ofan í saumana á málinu. Meirihluti þingsins samþykkti hins vegar að ríkisendurskoðandi myndi hafa rannsóknina með höndum.
Brjálað að gera hjá ríkisendurskoðun
Skýrslugerðin hefur hins vegar tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir, í samtali við Vísi, ýmislegt hafa valdið því.
„Þetta er þannig mál. Þetta er mikil vinna og ekki eins og þetta sé eina verkefnið sem við erum með undir. Við höfum verið að vinna að nokkrum viðamiklum skýrslum í sumar um samkeppniseftirlitið, samkeppnissjóð og fleira. Það hefur verið brjálað að gera,“ segir Guðmundur Björgvin.
Þá hafa verið sumarfrí hjá stofnunninni auk þess sem Covid hefur sett strik í reikninginn. Sjálfur lagðist Guðmundur Björgvin nýlega en honum hafði til þess, fullbólusettur maðurinn, tekist að forðast þau veikindi. En margir hjá ríkisendurskoðanda hafa mátt kljást við Covid. Guðmundur Björgvin segir að um fimm manns hjá ríkisendurskoðun komi að skýrslugerðinni, þar með talinn hann sjálfur.
Hefði viljað láta sérstaka rannsóknarnefnd annast málið
„Vinnunni hefur miðað ágætlega hjá okkur. Við reiknum með að skila henni til Alþingis í þessum mánuði. Það ræðst svo af því hvenær og með hvaða hætti Alþingi tekur hana fyrir hvenær hún birtist almenningi,“ segir Guðmundur Björgvin.
Ríkisendurskoðandi sendir skýrsluna frágengna til forseta Alþingis sem þá ýtir henni áfram til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem á sæti í fjárlaganefnd, hefur farið fram á að hún verði lögð fram þar einnig. Björn Leví segist í samtali við Vísi ekki koma sér á óvart þó skýrslan liti loks dagsins ljós í þessum mánuði. Það sé tímabært.
„Það er búið að fresta þessu of oft nú þegar. Miðað við hversu umfangsmikið verkefni þetta er þá erum við bara að sjá það í verki að rannsóknarnefnd hefði átt að taka við þessu máli strax.“