Albanese, sem tók við völdum í júní síðastliðnum, hefur sagt að stjórnvöld muni freista þess að leggja sitt af mörkum eftir diplómatískum leiðum, þar sem það sé ekki æskilegt að stunda utanríkismál í gegnum gjallarhorn.
Faðir Assange segist hins vegar vera að missa vonina varðandi aðkomu Albanese og að stjórnvöld gætu hæglega tekið upp símann og krafist þess af Joe Biden Bandaríkjaforseta að Bandaríkjamenn láti af framsalskröfu sinni. Ástralía sé mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna um þessar mundir og Ástralir gætu hreinlega gert lausn Assange að skilyrði fyrir samvinnu.
Fram kom í minnisblaði að stjórnvöld hefðu skoðað þann möguleika að Assange fengi að afplána í Ástralíu ef hann yrði fundinn sekur um njósnir í Bandaríkjunum. Shipton segir hins vegar ógeðfellt að fresta inngripi þar til eftir réttarhöld. Hann segir þau gætu tekið mörg ár og þá bendir bróðir Assange á þá staðreynd að sérfræðingar hafi sagt Assange í mikilli sjálfsvígshættu ef framsal verður niðurstaðan.