Innherji

Íslandsbanki hyggst ekki að selja í kísilverinu til „skemmri tíma litið“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Til skoðunar er að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins í ljósi batnandi rekstrar. 
Til skoðunar er að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins í ljósi batnandi rekstrar.  Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Íslandsbanki hefur ekki fyrirætlanir um að selja hlut sinn í Bakkastakki, eignarhaldsfélagi sem heldur utan um hlut bankans og lífeyrissjóða í kísilveri PCC á Bakka, til skemmri tíma litið. Þetta kemur fram í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Innherja.

Bakkastakkur eignaðist 34,6 prósent af hlutafé kísilvers eftir að gengið var frá fjárhagslegri endurskipulagningu í apríl. Í endurskipulagningunni fólst umbreyting á víkjandi skuldabréfi að fjárhæð 86,7 milljónir dala og 13,5 prósenta forgangshlutafé Bakkastakks í almennt hlutafé, og hluthafalán að fjárhæð 9,1 milljón dala.

Starfsmaður Íslandsbanka fór úr stjórn Bakkastakks í sumar og í stað hans kom forstöðumaður eignarstýringar Arion banka, sem annast eignarstýringu fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn. Jafnframt var Bakkastakkur fjarlægður af undirsíðu á vef Íslandsbanka sem sýnir eignarhluti bankans í óskyldum rekstri.

„Árið 2019 lá fyrir að endurskipuleggja þyrfti fjárhag Bakkastakks og PCC á Bakka. Fékk bankinn þá heimild FME til að setja fulltrúa sinn í stjórn Bakkastakks en samhliða var flokkun hlutarins breytt úr því að vera viðskipti fyrir eigin reikning yfir í að vera tímabundin starfsemi sömu laga enda uppfyllti hluturinn ekki lengur skilyrði fyrri flokkunar,“ segir í svari Íslandsbanka.

„Þegar fjárhagslegri endurskipulagninu var lokið gekk starfsmaður bankans úr stjórn félagsins og var hluturinn í kjölfarið endurflokkaður sem „Viðskipti fyrir eigin reikning“. Bankinn hefur ekki fyrirætlanir um að selja hlutinn til skemmri tíma litið.“

Innherji greindi frá því í apríl að stjórnendur kísilversins hefðu til skoðunar að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins á næstu árum í ljósi batnandi rekstrar og markaðsaðstæðna. Verksmiðjan, sem býr yfir tveimur ljósbogaofnum, var hönnuð með framtíðarstækkun í huga. Framleiðslugetan er um 32 þúsund á ári en heimilt er, samkvæmt starfsleyfinu frá Umhverfisstofnun, að framleiða 66 þúsund tonn í fjórum ljósbogaofnum.

Kísilverið skilaði jákvæðri rekstarafkomu í fyrra eftir „uppörvandi frammistöðu“ á síðasta ársfjórðungi, að því er kom fram í síðustu ársfjórðungsskýrslu þýska móðurfélagsins. Tekjur jukust úr 23 milljónum dala í 49 milljónir, og heildartap lækkaði úr 53 milljónum dala í 24 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×