„Við erum ekki hljóðlátur fjárfestir. Við erum með umtalsverðan hlut og maður vill leggja sitt á vogarskálarnar,“ segir Hilmar Þór.
Fasti, sem er í eigu Hilmars Þórs og eiginkonu hans Rannveigar Eirar Einarsdóttur, keypti 7,7 prósent hlut í Sýn í gær. Þau eru jafnframt eigendur fjárfestingafélagsins Reirs sem er fimmti stærsti hluthafi Ölgerðarinnar og á Rannveig Eir sæti í stjórn drykkjarvöruframleiðandans.
„Við höfum alltaf fylgt fjárfestingum okkar eftir með því að fara í stjórnir félaganna. Ef við ætlum ekki að bregða út af þeirri venju þá hef ég í hyggju að fara í stjórn. Mér finnst það ekki ósennilegt,“ segir Hilmar Þór.
Viðskiptin koma í kjölfarið á kaupum Gavia invest, nýstofnaðs fjárfestingafélags, á samanlagt um 16 prósenta hlut í Sýn, meðal annars á öllum hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra félagsins. Hefur stjórn Sýnar boðið til hluthafafundar þann 31. ágúst að kröfu fjárfestingafélagsins.
Jón Skaftason, sem er í forsvari fyrir Gavia Invest og var um árabil framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365 miðlum, sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að fjárfestahópurinn hefði „fylgst lengi“ með Sýn. „Við ætlum okkur að hafa virka aðkomu að rekstri félagsins og munum beita okkur fyrir aukinni verðmætasköpun í þágu allra hluthafa Sýnar.“
Auk Jóns, sem fer með hlut í Gavia Invest í gegnum félagið sitt Pordoi, þá samanstendur fjárfestahópurinn af Reyni Grétarssyni, stofnanda Creditinfo, og Hákoni Stefánssyni, og auk þess félaginu E&S 101 sem er í eigu Jonathan Rubini, einn ríkasti maður Alaska og meðal stærstu eigenda Keahótela, Mark Kroloff hjá First Alaskan Capital Partners og Andra Gunnarssonar, lögmanns og fjárfestis.
Ég sat í stjórn Sýnar, þekki félagið vel og tel mig hafa séð hversu mikið það á inni
Reynir sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni að hann undraðist hvers vegna félagið væri ekki metið hærra og vísaði meðal annars til innviðaeigna. Þá sagði Reynir að hann sjálfur væri tilbúinn að taka sæti í stjórninni ef áhugi væri fyrir því meðal hluthafa, auk þess sem Gavia stefndi að því að fá Jón Skaftason kjörinn í stjórn.
Hilmar Þór deilir þeirri skoðun með Reyni að Sýn sé undirverðlagt á markaði.
„Ég skil ekki af hverju gengi félagsins er ekki hærra en raun ber vitni. Ég sat í stjórn Sýnar, þekki félagið vel og tel mig hafa séð hversu mikið það á inni,“ segir Hilmar Þór sem sat í stjórn Sýnar í eitt ár, frá mars 2020 til mars 2021.
Hlutabréfaverð Sýnar stendur nú 68 krónum á hlut og er markaðsvirði félagsins því um 18,2 milljarðar króna. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað lítillega frá áramótum en á síðustu tólf mánuðum hafa þau hækkað í verði um liðlega 63 prósent.
Innherji er undir hatti Sýnar hf.