Innlent

Brott­farir er­lendra ferða­manna fleiri nú í júlí en árið 2019

Eiður Þór Árnason skrifar
Ferðamannafjöldinn nálgast það sem sást fyrir faraldur.
Ferðamannafjöldinn nálgast það sem sást fyrir faraldur. Vísir/Vilhelm

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru rúmlega 234 þúsund í júlímánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þetta er meiri fjöldi en árið 2019 og um leið fjórði fjölmennasti júlímánuðurinn frá því að mælingar hófust.

Brottfarir í júlí voru 84% af því þegar mest var í júlímánuði árið 2018 og jukust um 1,3% frá júlí 2019. Rúmlega þriðjungur brottfara var tilkominn vegna Bandaríkjamanna en brottfarir Íslendinga voru um 65 þúsund sem er álíka mikið og undanfarna tvo mánuði ársins. Þetta kemur fram í nýjum tölum Ferðamálastofu.

Bandaríkjamenn yfirleitt fjölmennastir í júlí

Brottfarir Bandaríkjamanna voru um 79 þúsund talsins eða 34,6% af heildinni í júlí. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennastir í júlímánuði frá árinu 2013 og náðu brottfarir þeirra hámarki í júlí 2018 þegar þær voru um 103 þúsund talsins.

Þjóðverjar koma í öðru sæti í júlí síðastliðnum með um 17 þúsund brottfarir eða 7,3% af heild og Danir í því þriðja með 5,6% af brottförum.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu hafa rúmlega 870 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi frá áramótum en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra tæplega 185 þúsund talsins. Enn er nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara sem var fyrir heimsfaraldur kórónuveiru en brottfarir voru um 1,3 milljón talsins þegar mest var á tímabilinu janúar til júlí 2018. Það eru um 436 þúsund fleiri en í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×