Tugir þúsunda evrópskra ferðamanna sem hafa farið til Kanaríeyja eru að mestu ómeðvitaðir um þjáningu flótta- og farandfólks.
Reuters fréttaveitan ræddi við fólk sem hefur flúið til Kanaríeyja. Þeirra á meðal var Mohamed Fane. Hann er 33 ára gamall smiður sem ferðaðist frá Senegal til Kanaríeyja. Eftir hættulega ferð og margra mánaða bið í Dakhla í Marokkó smöluðu smyglarar honum og á rúmlega tuttugu öðrum um borð í lítinn trébát og sendu þau af stað til Kanaríeyja.
Báturinn varð þó eldsneytislaus langt frá eyjaklasanum og voru þau á reki í þrjá daga í lekum bát. Einn dó en að endingu var þeim bjargað og þau flutt til Gran Canaria.
Annar viðmælandi fréttaveitunnar, sem leiðir stuðningssamtök á Tenerife, segir óðagot ríkja á meginlandi Afríku eftir faraldur kórónuveirunnar og vegna stríðsins í Úkraínu og verðbólgu. Hann óttaðist að mun fleiri muni reyna að komast til Kanaríeyja á næstu misserum.
Í fyrra bárust fréttir af umfangsmiklu streymi farand- og flóttafólks til Ceuta, sem er yfirráðasvæði Spánar í Norður-Afríku. Her Spánar var sendur á vettvang til að hefta flæðið og þúsundir voru send aftur til Marokkó.
Sjá einnig: Hafa sent þúsundir aftur til Marokkó
Ráðamenn á Spáni gerðu svo samkomulag við yfirvöld í Marokkó um að stöðva fólk á leið til Ceuta og síðan þá hafa sífellt fleiri lagt leið sína til Kanaríeyja.
Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í vikunni segir að erfit sé að ná utan um fjölda þeirra sem deyja við að reyna að komast til Kanaríeyja og á öðrum sambærilegum leiðum á sjó.