Trump greindi sjálfur frá húsleit alríkislögreglunnar í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, á mánudagskvöld. Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti síðan í gær að hann hafi persónulega gefið heimild fyrir leitinni.
Í dag greindi Washington Post frá því að í leitinni hafi lögreglumennirnir meðal annars verið að leita að trúnaðargögnum er vörðuðu kjarnorkuvopn. Þó er ekki búið að staðfesta það en dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir því að fá að opinbera leitarheimildina. Trump sjálfur hefur einnig óskað eftir því.
Wall Street Journal greinir nú frá því að meðal þeirra gagna sem voru fjarlægð voru upplýsingar um forseta Frakklands, Emmanuel Macron, en ekki er vitað hvaða upplýsingar það eru.
Þá eru meðal gagna fjögur sett af gögnum merkt „Top Secret“ sem er ein hæsta leyndarskilgreining bandarískra stjórnvalda, þrjú sett af öðrum leynilegum gögnum og þrjú önnur sett af gögnum merkt „trúnaðarmál“.
Trump segir að öll þessi gögn hafi verið geymd á öruggum stað og að það hafi verið búið að opinbera þau þegar hann tók þau heim til sín. Hann hefði verið til í að afhenda gögnin þrátt fyrir að engin leitarheimild væri fyrir hendi.