Sendinefndin kom til Taívan í gær en ekki hefur verið gefið út hvað verði rætt á fundi þeirra við forsetann í dag. Þetta er önnur heimsókn bandarískra embættismanna til Taívan á innan við mánuði en tæpar tvær vikur eru liðnar síðan Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings heimsótti eyjuna.
Frá þeirri heimsókn hafa kínversk yfirvöld sýnt hernaðarmátt sinn með stöðugum æfingum og hefur kínverski herinn meðal annars skotið eldflaugum yfir eyjarnar, sem hafnað hafa í Taívanssundi.
Kína hefur auk þess sent herskip og þotur til að vakta hafsvæðið við eyjuna, sem haldið hefur aftur af kínverska hernum eftir blóðuga borgarstyrjöld á fimmta áratugi síðustu aldar. Kína lítur á pólitísk samskipti bandarískra stjórnmálamanna og yfirvöld eyjunnar sem stuðning við sjálfstæðisyfirlýsingar hennar frá yfirvöldum í Peking.
Kína hefur í gegn um tíðina lýst yfir vilja til að taka eyjuna aftur á sitt vald með friðsælum hætti en heræfingar undanfarinna ára hafa vakið upp áhyggjur um að kínversk yfirvöld muni beita hernaðarmætti sínum til að ná henni aftur á sitt vald.
Demókratinn Ed Markey frá Massachusetts leiðir fimm manna sendinefnd Bandaríkjanna en hún mun á næstu dögum funda bæði með yfirvöldum og aðilum í einkageiranum.